Guðni Ívar í 6. sæti
Kæru samborgarar.
Ég sækist eftir 6. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningar. Á fyrsta degi næsta mánaðar fylli ég 22 ár í aldri og á upphaf mitt og uppvöxt í Reykjanesbæ. Það er snemma sem pólitík fer að vekja áhuga minn og hef ég tekið þátt í henni, sem og fylgst með, bæði á landsvísu og í Reykjanesbæ.
Ungt fólk á fullt erindi í bæjarpólitík verandi stór hluti þeirra sem mynda samfélagið í íbúafjölda. Þátttaka ungs fólks í framboði kallar á fleiri raddir annarra sem samsama sig í aldri og þroska með frambjóðendum, kallar á meiri virkni ungs fólks í kosningabaráttu og kallar ekki síður á meiri þátttöku ungs fólks á kjörstað. Og þörf er á!
Njóti ég traust samfélagsins, að vera rödd unga fólksins, mun ég kappkosta að leggja lóð mín á vogarskálar drifkrafts, heiðarleika og hugsjónar svo bærinn okkar haldi áfram að vaxa sem myndugt bæjarfélag. Það er ánægjulegt að gefa sig að pólitík og mun ég að reyna af minni bestu getu og kröftum að sýna það og sanna í kosningabaráttunni.
Þau eru mörg málefnin sem ég brenn fyrir en ég leyfi mér að draga fram íþróttalífið sem ég hef með sterkum taugum tilheyrt í Reykjanesbæ, bæði sem iðkandi hjá Knattspyrnudeild Keflavíkur og síðar sem yngri flokka þjálfari. Íþróttir eru ein af undirstöðum þroska barna og ungmenna. Því er mikilvægt að heilsueflandi Reykjanesbær styðji af mætti sínum við bakið á íþróttafélögunum sem sinna þúsundum iðkendum barna og stuðla þannig að þeirra heilbrigði og hreysti. Reykjanesbær á m.a. lið í efstu deildum í tveimur vinsælustu íþróttum á Íslandi, knattspyrnu og körfubolta, þá bæði í karla- og kvennadeildum. Árangur íþróttaliða í Reykjanesbæ kemur ekki að sjálfu sér. Íþróttahreyfingin reiðir sig á sterkan samtakamátt sjálfboðaliða sem leggja fram mikilvæga vinnu, bæði við stór og smá verkefni, og með óeigingjörnu framlagi sínu gera það að verkum að að íþróttafélögin eflast og dafna. Engu að síður er mikilvægt að bæjaryfirvöld styðji sterkt við rekstur íþróttadeilda í Reykjanesbæ.
Ég er nýliði í bæjarpólitíkinni og á því margt eftir ólært sem að henni snýr, en það er oftar en ekki mjög gott að fá nýja sýn og lausnir við margvíslegum áskorunum.
Ég er spenntur fyrir komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna þann 26. febrúar nk. Með von um að geta treyst á þinn stuðning í 6. sætið!
Guðni Ívar Guðmundsson
Frambjóðandi í 6. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.