Guðbjörn býður sig fram í 3. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum
Guðbjörn Guðbjörnsson hefur ákveðið að bjóða sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sem fara á fram 14. mars næstkomandi.
Guðbjörn fæddur 3. júní 1962. Árið 2008 lauk hann meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu (MPA/Master of Public Administration) og er því stjórnsýslufræðingur að mennt. Að auki lauk hann burtfararprófi í óperusöng árið 1986 en hann stundaði framhaldsnám í Austur-Berlín og lauk námi frá Óperustúdíóinu í Zürich í Sviss árið 1989. Þessu til viðbótar lauk hann BA prófi í þýsku árið 2006 og prófi frá Tollskóla ríkisins árið 2000.
Guðbjörn starfar í dag sem yfirtollvörður og stýrir þróunardeild tollstjóraembættisins auk þess að kenna óperusöng. Hann hefur átt sæti í stjórnum Sjálfstæðisfélaga, fulltrúaráðum og kjördæmisráði og kosningastjórnum.
„Ég býð krafta mína fram við endurreisn íslensks samfélags. Í þeirri vinnu er mikilvægt að hagsmunir heimila og fyrirtækja verði tryggðir, sem að mínu mati eru tengdir órjúfanlegum böndum. Tryggja verður að Íslendingar taki ekki á sig meiri skuldbindingar en svo að hér verði áfram tryggð sambærileg lífsgæði og afkoma og gerist í nágrannaríkjunum. Annars er hætta á að tugir þúsunda landsmanna yfirgefi landið. Verði viðunandi lausn fundin fyrir sjávarútveg og íslenskan landbúnað getum við ekki útilokað aðild Íslands að ESB, sem hluta lausnar á aðsteðjandi vanda,“ segir Guðbjörn m.a. í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna framboðs síns.
Hann segir að þegar til framtíðar er litið sé uppbygging fjármálakerfisins mikilvægust. Án öflugs bankakerfis muni atvinnulífið ekki verða í stakk búið til að auka útflutningstekjurnar og til að tryggja okkur þá þjónustu sem við þörfnumst. Marka verði framtíðarstefnu í peningamálum og hvaða lögeyri við Íslendingar kjósum að nota.