Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 7. júlí 2003 kl. 20:45

Grjótburður á þjóðvegi á Suðurnesjum

Ágæti vegamálastjóri.

Ég get nú ekki lengur orða bundist vegna vegamálastefnu þeirrar sem fram er fylgt af stofnun yðar hér á Suðurnesjum. Ég á þar sérstaklega við malarburð á axlir vega, sem síðan aðilar eins og Umferðarráð og lögreglan keppast við að hvetja menn til að aka á hér á þjóðvegi nr. 41 - Reykjanesbraut. Þar fer stofnun yðar á undan í því að mæla með slíku framferði, en mér vitanlega hafa téðar axlir EKKI verið hannaðar sem vegir, né heldur endurbyggðar sem slíkar. Það eina sem hefur verið gert er að róta upp mishreinu efni í burðarlag, þjappa það og setja á það klæðningu. Á þessu ætlist þið síðan til að jafnvel þyngstu vöruflutningabifreiðar aki á allt að 80 km. hraða (að ég minnist nú ekki á hina sem fara yfir hraðatakmörkin) og þetta finnst ykkur bara fínt! Og svo þegar þessir 'tillitsömu' hægfara ökumenn fara út á axlirnar, án þess að hægja hið minnsta á, þá ausa þeir smágrjóti yfir alla þá sem voga sér að reyna að fara fram úr þeim, með tilheyrandi skemmdum á lakki, ljósum og framrúðum.Ég get ekki annað en vorkennt Umferðarráði og lögreglu, en einhvers staðar segir: "faðir fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gera", en stofnun yðar, með alla sína lærðu sérfræðinga, hún veit betur og illt hlýtur að vera að þurfa að setja fram hluti sem þessa í nafni pólitíkurinnar.

Ég hvet yður til að taka þessa óheillastefnu til endurskoðunar og hætta að taka undir það að það sé bara allt í lagi að aka á vegaröxlunum, því það er bara alls ekki í lagi, sér í lagi þegar verið er að bæta ofaná þessa ómynd með nýrri möl (því sú sem var er jú löngu upp tætt af umferðinni). Það er nefnilega ekki bara nóg að þið fáið verktaka til að dreifa þessum fj... á axlirnar, þið ætlist jafnframt til að umferðin þjappi þetta og svo er ekki verið að hafa fyrir því að láta verktakana sópa eftir sig, nema svona rétt til málamynda. Vil ég af því tilefni sérstaklega benda yður á nýlegar framkvæmdir á vegi 45 milli hringtorgs við veg 41 og áleiðis í Garðinn, þar var sett svona möl á axlir, reynar ekki nógu breitt til að aka á, en það kemur kannski síðar, en svo var rennt sóp eina bunu til að taka það mesta, en gatnamótin skilin eftir, 'löðrandi' í möl, sem skapar mikla slysahættu þegar bifreiðar koma frá Keflavík eftir Heiðarbrún og enda á T-gatnamótunum. Einnig var nýverið bætt á 'akstursaxlirnar' á vegi 41 frá Hafnarvegi áleiðis að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þar virðist vera það sama uppi á teningnum, flest öll gatnamótin eru ekki hreinsuð af umfram lausamöl!

Ég skora á yður að sjá til þess að á þessu verði tekið hið fyrsta og þessar slysagildrur fjarlægðar, það er of seint þegar einhver hafur komið of hratt að gatnamótum og skrikað í lausamöl, sem alls ekki hefði átt að vera til staðar.

Kveðja,

Erlingur J Leifsson
Kt. 141156-5279
Heiðarholti 3
230 Keflavík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024