Grindvískir rafbílaeigendur eru í vanda
Það eru hin ýmsu mál sem koma upp þegar fólk breytist í flóttafólk. Margir Grindvíkinga voru ekki staddir í Grindavík þegar ósköpin gengu yfir á föstudaginn og höfðu því engin tök á að grípa brýnustu nauðsynjar með sér. Því miður var fréttaflutningur ekki réttur í morgun, eingöngu verður íbúum í Þórkötlustaðarhverfi fyrir austan Grindavík hleypt inn á heimili sín en íbúar þar eru bara brotabrot af íbúum Grindvíkinga.
Rafmagnsbílaeigendur í Grindavík eru fjölmargir, þeir sem eiga rafmagnsbíl, eiga heimahleðslustöð. Þar sem Orkufyrirtækin gáfu afslátt við að viðkomandi var kominn á rafmagnsbíl, hafa eigendur varla tekið eftir muni á rafmagnsreikningnum. Þó svo að margfalt ódýrara sé að fylla á bílinn á raforkustöð heldur en að fylla bílinn af bensíni eða dieselolíu, er kostnaðurinn við að fylla bílinn af rafmagni, samt þónokkur.
Eru rafbílaeigendur utan Grindavíkur, tilbúnir að opna heimahleðslustöð sína fyrir flótta-rafbílaeigendur frá Grindavík og leyfa þeim að fylla á bíla sína yfir daginn þegar viðkomandi rafstöð er væntanlega ekki í notkun? Sagan segir að það sé jafngildi pulsu & kóks, að fylla bíl af rafmagni og því myndi viðkomandi heimili lítið finna fyrir þessari aukahleðslu. Að sjálfsögðu myndi samt viðkomandi flóttarafbílaeigandi, væntanlega vera til í að borga sem næmi verði pulsu & kóks, segjum 500 kr. Þar sem um samfélagslega ábyrgð er að ræða, væri kannski eðlilegt að viðkomandi húsaeigandi með rafhleðslunni, geti haft samband við sitt orkufyrirtæki og sagt frá stöðu mála og óskað eftir tímabundnum meiri afslætti á meðan ástandið varir.