Karlakórinn
Karlakórinn

Aðsent

Grindvíkingar sigla milli brota
Föstudagur 19. janúar 2024 kl. 06:06

Grindvíkingar sigla milli brota

Það eru ríkar tilfinningar í gangi á meðal Grindvíkinga og allrar þjóðarinnar. Við fylgjumst með því sem er að gerast og dáumst að æðruleysi þeirra sem nú horfa á enn eina breytta mynd af samfélagi sínu í Grindavík. Fimmta eldgosið á þremur árum er mikil raun fyrir alla sem fyrir því verða. Sjóðheitur raunveruleikinn blasti við þjóðinni þegar við horfðum upp á eldgos í byggð og fyrstu húsin urðu hraunrennslinu að bráð. Það vekur upp erfiðar minningar Eyjamanns sem þekkir þessa sjón og þá þungu tilfinningu sem henni fylgir. Samúð mín er öll hjá þeim sem stóðu í þeim sporum síðastliðinn sunnudag og horfðu á húsið sitt, heimili verða að engu. Móðir mín stóð í sömu sporum fyrir 50 árum, 37 ára að aldri.

Hún beið þess aldrei bætur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Snemmtækt inngrip

Ég hafði óskað eftir því við formann velferðarnefndar Alþingis fyrir lok síðasta árs að nefndin tæki upp umræður um áfallahjálp og meðferð við alvarlegum sálrænum áhrifum hamfaranna í Grindavík. Afleiðingar þeirra geta komið fram strax, eða jafnvel að löngum tíma liðnum með alvarlegum afleiðingum eins og kom í ljós eftir gosið í Eyjum. Það hefur því legið fyrir í nokkurn tíma að velferðarnefnd fundi með sóknarpresti Grindvíkinga, Elínborgu Gísladóttir, Nökkva Má Jónssyni, sviðsstjóra félagsþjónustu- og fræðslusviðs, ásamt fulltrúum Rauða kross Íslands. Það er afar mikilvægt að nefndin hafi forgöngu um að fylgja eftir að öll sú aðstoð og þjónusta verði veitt til að aðstoða fólk þegar afleiðingar áfallanna fara að koma í ljós og helst áður. Fyrir mér er þetta ekki spurning um kostnað, heldur lífsgæði og koma í veg fyrir að síðar gæti fórnarkostnaðurinn verið margfalt meiri en að grípa strax inn í atburðarrásina. Snemmtækt inngrip velferðarnefndar Alþingis er því afar mikilvægt í þessu máli og ég er þakklátur nefndarfólki fyrir að sýna málinu stuðning.

Við ætlum að grípa alla.

Gefum fólki styrk

Nú blasir við sú nöturlega staða, að líklega verða síðustu atburðir til að fresta því um lengri tíma að íbúar Grindavíkur flytji aftur heim líkt og væntingar margra stóðu til. Verkefni Alþingis verður að gefa fólki styrk og bjartsýni varðandi framhaldið, með því að eyða eins og kostur er fjárhagsáhyggjum Grindvíkinga. Uppkaup á fasteignum og tryggja fasteignaeigendum möguleika til að eignast nýtt húsnæði, án þess að ónotuð eign í Grindavík sé seld eða bætt. Ríkissjóður verður með einhverjum hætti að finna réttláta leið til að tryggja fasteignaeigendum á hamfarasvæðum möguleika til að eignast annað húsnæði, a.m.k. tímabundið. Þetta getur auðvitað verið vandasamt en mikilvægast að með setningu slíkra reglna eða laga verði jafnræðis gætt. Eðlilega hefur þessi umræða mörg sjónarhorn og margvísleg jaðaráhrif sem erfitt er að greina. Ég treyst því að við náum að finna leiðir sem þegar hefur verið bent á og þarf að slípa saman.

Útgangspunkturinn er jafnræði fyrir alla.

Baráttuhugur Grindvíkinga

Forsenda áframhaldandi byggðar í Grindavík er atvinnulífið. Tryggja verður með öllum ráðum stöðu fyrirtækjanna í Grindavík svo starfsemi þeirra geti komist sem fyrst af stað til að framleiða verðmæti. Tryggja endurreisn bæjarfélagsins og heimila er forsenda byggðar í Grindavík. Ef Guð og gæfan fylgja þeim áformum mun Grindavík rísa á ný og baráttuhugur Grindvíkinga mun skila sér í endurheimt bæjarfélags sem er hluti af hjarta þeirra. Staðan er flókin, erfið og þung, en fáir ef nokkrir eru líklegri til að vinna sigur í þeim leik eru Grindvíkingar. Sjómenn hafa sótt sjóinn um aldir og lending í Grindavík oft verið erfið og tekið sinn toll. Núna er siglt milli brota í innsiglingunni og lífróður tekin til að ná landi.

Við erum öll í sama skipsrúmi.

Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.