Grindvíkingar margir tilbúnir að hugsa stórt
Maður er nefndur Gunnlaugur Einarsson en hann er nýtekinn við stöðu ferðamálafulltrúa í Grindavík. Hann er Reykvíkingur og sleit barnsskónum á mölinni. Silja Dögg Gunnarsdóttir spjallaði við kappann og komst meðal annars að því að Grindavík er orðinn svo vinsæll bær að ferðamálafulltrúinn er ekki enn búinn að finna húsnæði á svæðinu og óskar hér með eftir því.Sparkskórnir á hillunaGunnlaugur var forfallinn fótboltamaður langt fram eftir aldri en segir að sparkskórnir séu nú komnir í hvíld því með aldrinum hefur hann kunnað æ betur við hlutverk skólastráksins. „Áhuginn hefur lengi legið á mörkum stjórnmála- og sálfræði svo ég hef stúderað hvort tveggja og er með B.S. í sálfræði. Áður en ég tók við stöðu ferðamálafulltrúa hér í Grindavík var ég við næturvinnu og sitthvað fleira. Næturbröltið hentaði mér mjög vel, m.a. vegna þess hve góð færi það gefur á að sinna fleiri verkefnum, en ég hef t.d. verið að kenna umferðarsálfræði.“Vinnusemi bæjarbúaGunnlaugur lék knattspyrnu í Grindavík eitt sumar fyrir langa löngu og var þá búsettur í Grindavík. Hann segist hafa kynnst bænum og fólkinu af góðu einu og það hafi meðal annars haft áhrif á það að hann hafi ákveðið að sækja um þetta starf. „Umhverfi bæjarins er það sem ég er hvað spenntastur fyrir. Hér eru margar perlur, t.d. Bláa Lónið, svæðin í grennd við Þorbjörn, frá golfvellinum og út að vita, Krísuvík og fleira mætti nefna. Það er svo mikill kraftur í svæðinu að maður verður endurnærður af nálægð við það enda má kannski segja að það endurspeglist í vinnusemi bæjarbúa“, segir Gunnlaugur og bætir við að starfið gefi honum möguleika á að hjálpa til við að gera meira úr þessum svæðum. „Ég tel það spennandi og verðugt verkefni“, segir Gunnlaugur með áherslu.Skynsamlega staðiðað uppbygginguAð mati Gunnlaugs hefur skynsamlega verið staðið að uppbyggingu í Grindavík og nefnir sem dæmi að leik- og grunnskólamál eru komin í góðan farveg. „Hér er gott íþróttalíf og fjárfesting í bættri höfn skilar sér. Verið er að treysta innviðina og á þeim grunni getur bærinn vaxið og dafnað. Einnig er í mínum huga lykilatriði að mér finnst sem Grindvíkingar séu margir hverjir tilbúnir til að hugsa stórt. Einhver sagði að það sé eina leiðin til að hugsa ef maður er að hugsa á annað borð“, segir Gunnalaugur.Fjölbreytt verkefniVerkefni ferðamálafulltrúa eru fjölbreytt og Gunnlaugi sýnist á öllu að hann eigi talsvert í land með að komast almennilega inn í þau öll. „Ég sinni upplýsingamálum fyrir ferðamenn, hef umsjón með tjaldstæðinu og með heimasíðu bæjarins. Ég mun einnig vinna að því að auka fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu og almennt að markaðssetningu bæjarins og þeirri ferðaþjónustu sem hér er verið að byggja upp með tilheyrandi samskiptum við alla þá aðila sem að því koma og svona mætti halda áfram að telja. Auk þess sinni ég öðrum verkefnum sem bæjarstjóri felur mér. Það er af nógu að taka og ég er rétt að byrja.“.