Aðsent

Grindavík - Bær fyrir alla
Föstudagur 11. maí 2018 kl. 11:06

Grindavík - Bær fyrir alla

Það var með mikilli gleði sem við í Samfylkingunni í Grindavík tilkynntum framboð okkar á dögunum. Aldrei kom annað til greina en að bjóða Grindvíkingum upp á félagshyggju- og jafnaðarflokk í komandi sveitarstjórnarkosningum. Gildi jafnaðarstefnunnar hafa sjaldan átt meira erindi en í dag og eitt helsta verkefnið framundan er að endurmóta íslenskt samfélag í anda hugsjóna jafnaðarmanna.
 
Við höfum að undanförnu unnið að kappi við að móta stefnuskrá okkar og munum opinbera hana á næstu dögum en hún mun leiða í ljós okkar helsta markmið, sem er að gera gott samfélag betra. Samfylkingin í Grindavík er breiðfylking jafnaðarfólks sem vinnur saman að sameiginlegu markmiði, að Grindavík sé bær fyrir alla.
 
Við í Samfylkingunni viljum lifandi og skemmtilegan bæ fyrir alla, þar sem enginn er skilinn eftir. Bæ sem er framúrskarandi fyrir börn og barnafjölskyldur þar sem að börnum er séð fyrir faglegri þjónustu um leið og fæðingarorlofi lýkur. Bæ þar sem öllum er tryggt öruggt húsnæði. Bæ sem leggur áherslu á virkni og jöfn tækifæri fyrir alla og setur velferð og hamingju íbúa sinna í öndvegi í öllum ákvörðunum sínum. Bæ sem áttar sig á mikilvægi þess að valdefla þá einstaklinga sem hjálp þurfa og standa höllum fæti af félags og efnahagslegum ástæðum og setur aukna fjármuni til forvarnarmála. Bæ þar sem fjölmenning er í hávegum höfð. 
 
Við viljum bæ þar sem stjórnsýslan er rekin á faglegum forsendum og gagnsæi,  upplýsingagjöf og aukin lýðræðisþátttaka íbúa er sett í öndvegi. Bæ sem býður börnum sínum og kennurum upp á menntastofnanir í fremstu röð þar sem vellíðan allra er forgangsmál. Bæ sem berst fyrir virkari heilsugæslu með áherslu á bætta geðheilsu ekki síst meðal ungs fólks og hvetur íbúa sína til heilsueflingar. Bæ sem er í fremstu röð þegar kemur að því að styrkja og efla íþróttastarf og leggur áherslu á forvarnargildi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála.
 
Bæ þar sem að umhverfis og skipulagsmál eru í fremstu röð og bæ sem berst fyrir bættum samgöngum í þágu atvinnu- og mannlífs á svæðinu. Við viljum bæ sem styður við fjöreggið sem ferðaþjónustan er og er tilbúinn að leiða stefnumótun til framtíðar í greininni þar sem náttúran fær að njóta vafans.
 
Við viljum bæ þar sem öldruðum er gert hátt undir höfði með fjölgun úrræða og aukinni fjölbreytni í búsetu og þjónustumálum og tryggir félagslega virkni og vinnur gegn einangrun eldra fólks. Við viljum bæ sem tryggir öldruðum áhyggjulausa ævidaga. 
 
Við í Samfylkingunni viljum að Grindavík sé bær fyrir alla.
 
Páll Valur Björnsson og Marta Sigurðardóttir 
leiða lista Samfylkingarinnar í Grindavík.
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024