Greið leið fyrir gagnaver
Loksins eftir nokkura mánaða biðstöðu er leiðin greið fyrir uppbyggingu gagnvavera á Íslandi. Nokkur slík hafa verið í kortunum um skeið og eitt þeirra stendur hálfbyggt á Vallarheiðinni. Nú heldur uppbygging þess áfram af fullum krafti eftir lagabreytingar Alþingis. Breytingar sem um náðist samstaða allra flokka, nema við þrjá þingmenn Framsóknar sem sátu hjá við lagabreytingarnar mörgum til undruna. Enda verður ekkert af byggingu gagnaveranna án þessara lagabreytinga.
Þröskuldurinn fyrir þessar breytingar var sá að skattareglur hérlendis voru ekki þær sömu og innan Evrópusambandins og þurfti að breyta ákvæðum um virðisaukaskatt í nokkrum atriðum.
Alþingi afgreiddi þessar breytingar á lokadegi þingsins og færði til samræmis við Evrópureglur og var málið eitt af þeim mikilvægustu á lokaspretti þingsins. Kristján Möller formaður iðnaðarnefndar rammaði breytingarnar ágætlega inn í atkvæðaskýringu sinni þegar hann sagði; Netþjónabúin eru boðin velkomin á Íslandi og megi þau koma sem flest.
Lagabreytingarnar fela í sér að ekki verður lagður virðisaukaskattur á selda þjónustu til erlendra aðila og ekki á innflutning þeirra á netþjónum sem hýsa á í íslenskum gagnverum. Án þessara breytinga á skattalögum hefðu íslensk gagnaver ekki verið samkeppnishæf við þau erlendu. Því liggur lagabreytingin á laugardaginn því til grundvallar að uppbygging gagnavera hefjist í landinu.
Nú fer uppbygging veranna á fulla ferð og er það mjög jákvætt fyrir einhæfa orkuýtingu í iðnaði að þessi umhverfisvæna starfsemi bætist í flóru orkunýtingariðnaðar landsins.
Tek ég undir með Möller iðnaðarnefndarformanni; veri þau velkomin og komi sem flest.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.