Grasið græna
„Um 6,5 prósent landsmanna búa á Suðurnesjum en í nýrri könnun Capacent sögðust um 11 prósent helst vilja flytjast þangað næst þegar þeir skipta um húsnæði“ þetta kemur fram á Víkurfréttavefnum þann 12. febrúar sl.
Hvað finnst okkur íbúum Reykjanesbæjar, stærsta sveitarfélagsins á Suðurnesjum, um þetta? Sem einn af þeim íbúum verð ég að segja að ég fagna þessu mjög, en kemur mér alls ekki á óvart. Forgangsröðun fólks tekur sífelldum breytingum og hjá fjölskyldufólki eru það skólarnir, tómstundaiðkun, menningin, samgöngur og fólkið sjálft sem skiptir mestu máli. Reykjanesbær kemur sterkur inn á öllum þessum sviðum. Auðvitað skiptir líka megin máli að hafa atvinnu til þess að halda fjölskyldu, en það að hafa góða skóla, niðurgreiddar tómstundir, frítt í sund og strætó og stuttar vegalengdir vegur ansi þungt.
Á undanförnum árum hefur það ekki síst verið skýrri framtíðarsýn bæjaryfirvalda að þakka að hér hefur íbúafjöldinn aukist jafnt og þétt. Sér í lagi er það fjölskyldufólk sem velur að koma hingað þar sem vitað er að hér er þjónustan góð. Það er einfaldlega mjög gott að ala upp börn hér í Reykjanesbæ og sá orðrómur fer víða.
Tíminn skiptir miklu máli í hinu hraða samfélagi okkar og ég hef heyrt aðflutt fólk hér í bæ tala um að hafa öðlast nokkra aukaklukkutíma í sólarhringinn vegna þess hve samgöngur eru hér góðar. Reykjanesbær hefur glímt við mikið atvinnuleysi undanfarin ár og því eru færri sem sækja hingað eingöngu í atvinnuleit, en jafnvel þar rofar til og öll merki eru á lofti þess efnis að enn muni ástandið lagast. Fjölmörg tækifæri eru í kringum okkur og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn á framtíðina.
Ég hef starfað sem bæjarfulltrúi síðustu fjögur árin, er formaður Menningarráðs, sit í stjórn Atvinnu- og hafnarráðs, Menningarráðs Suðurnesja og á sæti í ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs Sveitarfélaga. Ég hef unnið samkvæmt áðurnefndri framtíðarsýn bæjaryfirvalda þar sem hóflegar, en betrumbætandi, áætlanir skila hægt og örugglega þeim jákvæðu og eftirtektaverðu umbreytingum sem orðið hafa í okkar samfélagi undanfarin ár. Skólarnir eru að standa sig betur, íþróttirnar blómstra, menningarmálin eru á hraðri uppsiglingu og atvinnuhorfur verða betri og betri.
Í anda sjálfstæðisstefnunar sæki ég um endurnýjað umboð og óska eftir stuðningi í 5. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fram fer þann 1. mars n.k. því það er einlægur vilji minn og ásetningur að halda áfram að vinna að uppbyggingu og velferð í okkar ágæta sveitarfélagi. Ég hef hagsmuni minnar fjölskyldu að leiðarljósi þegar ég vel Reykjanesbæ til framtíðar. Með reynslu mína og vitneskju tel ég ekki nokkra ástæða til að ætla að grasið sé eitthvað grænna annarsstaðar?
Virðingarfyllst,
Björk Þorsteinsdóttir