Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Grasið fer í vetrardvalann
Föstudagur 18. ágúst 2023 kl. 06:28

Grasið fer í vetrardvalann

Nú loksins þegar grasið er farið að láta sjá sig í sínum besta lit og farið að vera vel spilhæft fer senn að líða að lokum tímabils. Septembermánuður er að renna upp sem þýðir að fótboltasumrinu fer að ljúka og grasið fer að setjast í vetrardvala allstaðar á landinu. Það spá kannski ekkert mörg knattspyrnulið í því þegar grasið fer í vetrarbúninginn en við Grindvíkingar sem stundum þessa frábæru íþrótt kvíðum þeim tíma árs.

Grindvíkingar skarta þremur fínum grassvæðum sem koma misvel undan vetri og einungis er hægt að leika á því í nokkra mánuði en við getum ekki sagt að við leikum þessa mánuði við toppgrasaðstæður þar sem grasið er nú oftast ekki orðið „leikhæft“ fyrr en í júní.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Því kvíða grindvískir knattspyrnumenn vetrinum?

Í september fækkar æfingum, æfingar styttast og ekki er hægt að leika keppnisleiki í okkar heimabæ þar sem við höfum ekki löglegan völl yfir vetrartímann. Grindvískir iðkendur æfa töluvert færri klukkustundir að vetri til miðað við aðra klúbba og þarf engan Albert Einstein til þess að finna út að það komi niður á framþróun leikmanna Grindavíkur. Grindavík hefur átt nokkra leikmenn á síðustu árum í úrtökum fyrir yngri landslið Íslands og hafa nokkrir þeirra komist áfram í lokahópa sem segir okkur að þjálfunin er góð en við gætum átt fleiri leikmenn með betri aðstöðu.

Hópið

Hópið sem var tekið í notkun haustið 2008 var stórt skref í framþróun knattspyrnu í Grindavík á sínum tíma og hefur nýst okkur vel í gegnum tíðina. Stærðin var flott árið 2008 miðað við iðkendur og æfðu stundum tveir flokkar á sitthvorum vallarhelmingnum en í dag er það ekki hægt sökum fjölda á æfingum sem þýðir að æfingatímunum fækkar og náum við ekki að bjóða iðkendum upp á þá þjálfun og þjónustu sem við myndum vilja gera.

Ákveðið var í haust að skipta ekki um gervigras í Hópinu sem var farið að slitna vel í sundur og orðið öllum þeim sem léku þar inni mikil hætta á meiðslum. Ákveðið var að fara í bráðabirgðaviðgerð sem átti að duga í tvö ár en grasið er farið að losna í sundur aftur og eru viðgerðirnar orðnar hættulegar á ný og leikmenn eiga á hættu að festa fæturnar. Ljósin voru farin að syngja sitt síðasta en búið er að skipta þeim út í sumar sem er frábært. Engin búningaaðstaða er fyrir iðkendur til þess að skipta um föt eða fara í sturtu eftir æfingar. Við erum búnir að hafa klósettgám fyrir utan Hópið síðan 2008 og skammast maður sín niður í skó þegar fólk spyr hvort það sé klósett á svæðinu og þarf að benda á þennan gám sem er orðinn mjög lélegur og eiginlega bara óbjóðanlegur.

Æfingar í Hópinu

Eins og ég sagði hér fyrir ofan þá æfa grindvískir iðkendur töluvert minna en aðrir klúbbar sökum aðstöðuleysis í Grindavík. Ég tók við yfirþjálfun yngri flokka síðasta haust og var mitt fyrsta verk að búa til æfingatöflu og reyna að koma öllum fyrir í Hópinu sem ætla sér að æfa. Ég sá það fljótt að ekki væri möguleiki fyrir alla flokka að æfa jafn mikið og önnur félög gera. Við tókum þá ákvörðun að panta völlinn á Álftanesi fyrir meistaraflokka félagsins þrisvar sinnum í viku til þess að koma yngri flokkum betur fyrir á skikkanlegum tímum og til þess að meistaraflokkar félagsins gætu nú æft á knattspyrnuvelli í réttri stærð. Þrátt fyrir að hafa losað um nokkrar klukkustundir í viku æfðum við samt töluvert minna en önnur félög. Grindvískir krakkar þurftu að æfa til tíu á kvöldin á virkum dögum sem kom niður á svefni þeirra fyrir skóla. Oft heyrir maður talað um að krakkar í dag þurfi að sofa meira en þeir sem stunda knattspyrnu í Grindavík fórna svefninum til þess að ná að gera það sem þeir elska og er það að spila fótbolta.

Álftanes

Ég er fæddur og uppalinn Grindvíkingur en í vetur var maður nánast farinn að teljast sem Álftnesingur þar sem æfinga- og keppnisvöllur okkar Grindvíkinga var þar í vetur. Álftanes leigði okkur völlinn sinn mikið í vetur og stöndum við í þakkarskuld við þá fyrir að hafa látið okkur fá tíma til þess að æfa og spila með meistaraflokkana okkar ásamt því að leika okkar „HEIMALEIKI“ í yngri flokkum á Álftanesi. Það kostar ekki bara klúbbinn pening að leigja völlinn á Álftanesi heldur kostar það líka leikmenn, þjálfara, foreldra og dómara bæði tíma og bensínpening að koma sér til og frá vellinum.

Veturinn 2023 og Grindavík í heimilisleit

Nú fer senn að líða að vetri og er búið að fjölga í yngri flokkunum hjá okkur og viljum við efla grindvíska knattspyrnu enn meir og liggur við enn meira vesen við að koma iðkendum Grindavíkur fyrir í Hópinu þennan vetur. Allir yngri flokkar félagsins ásamt meistaraflokkum félagsins þurfa á æfingum að halda í vetur, því miður er ekki pláss fyrir allar þær æfingar í Hópinu. Því eru tveir möguleikar framundan hjá knattspyrnudeildinni og annað hvort munu meistaraflokkar félagsins eða yngri flokkar verða af æfingartímum sem er alls ekki gott fyrir grindvíska knattspyrnu þróun, seinni er að við munum detta í lukkupottinn aftur og fá leigða velli t.d. á Álftanesi og lítur út fyrir að einhverjir af yngri flokkum félagsins þurfi að æfa úr bænum allavega einu sinni í viku ásamt því að meistaraflokkar félagsins æfi þar líka. Einnig munum við halda áfram þeim hætti að leika alla heimaleiki Grindavíkur í 4. flokki og upp úr í öðrum heimabæjum sem verður að teljast mjög dapurt árið 2023.

Klukkustundir í viku á æfingum

Spurningin

Vill Grindavíkurbær standa í vegi fyrir því að grindvískir knattspyrnumenn nái langt í heimi knattspyrnunnar vegna aðstöðuleysis til æfinga og keppnisleikja yfir vetrarmánuðina?

Anton Ingi Rúnarsson.