Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Grafið undan starfi fatlaðra
Föstudagur 10. júní 2022 kl. 10:11

Grafið undan starfi fatlaðra

Það sem af er þessari öld og rúmlega það hefur Þroskahjálp á Suðurnesjum rekið vinnustað fyrir fatlaða einstaklinga. Dósasel hefur vaxið og dafnað með árunum vegna þrotlausrar vinnu velvilja fólks og frábærra yfirmanna sem hafa hugsað um starfsemina og starfsfólkið eins og sitt eigið. Við fórum úr frumstæðum aðstæðum á Iðavöllum í stærra og betra húsnæði á Vatnsnesinu og nú erum við að skoða nýtt hús með betra aðgengi og aðstöðu fyrir viðskiptavini og okkar trausta og góða starfsfólk. Við stöndum á eigin fótum. Eigum nýjan sendibíl og nýjan lyftara og við skuldum nánast ekki neitt. Hjá Dósaseli starfa tíu til fimmtán starfsmenn í hlutastörfum eða í fullri vinnu og njóta almennra launakjara. Þá nýtur okkar starfsfólk ýmissa hlunninda sem við getum aðstoðað það með.

Eftir kórónuveirufaraldurinn, sem reyndist okkur þungur í skauti eins og öðrum, höfum við orðið var við nýja áður óþekkta ógn. Það eru þeir aðilar sem reynt hafa að komast inn á markað Dósasels í Reykjanesbæ og á Keflavíkurflugvelli. Við fréttum af aðilum í Flugstöðinni sem vildu seilast eftir viðskiptum okkar þar – en Flugstöðin er hryggjarstykkið í okkar rekstri og við höfum haldið út gríðarlega góðri þjónustu við Flugstöðina. Okkar öflugu starfsmenn og bílstjórar sækja þangað alla daga og um helgar dósir og flöskur eftir þörfum. Við sinnum Flugstöðinni afar vel og eigum þeim líka mikið að þakka fyrir skilning á starfsemi Dósasels.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú hafa Grænir skátar í samstarfi við bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ komið fyrir söfnunargámum á skipulögðum svæðum víða um Reykjanesbæ. Það má vera að við í Dósaseli höfum ekki alveg verið á tánum í þessari þjónustu en við sækjum þó heim til fólks og í fyrirtæki sem óska þess. Dósasel reyndi þetta fyrir margt löngu en söfnunargámarnir urðu skemmdarvörgum að bráð.

Það hefur heldur enginn hjá bænum óskað eftir því að við leggðum í kostnað til að bæta þjónustuna við íbúa. Jafnvel þó við höfum verið í tveggja ára samningaviðræðum við Reykjanesbæ um yfirtöku á rekstrinum, var aldrei rætt um að auka þjónustuna. Það skýtur því skökku við að opna á samkeppni við eina vinnustaðinn sem hefur það að markmiði að skapa störf fyrir fatlaðir einstaklinga. Dósasel nýtur ekki opinberra rekstrarstyrkja en fær fasteignargjöld niðurfelld.

Ef íbúar í Reykjanesbæ vilja að hér verði starfandi þjónusta eins og Dósasel veitir og skapi störf fyrir fatlaða einstaklinga verða þeir að koma með dósir og gler í Dósasel. Það er ekki sjálfgefið að starfsemin geti haldið áfram á þeirri braut sem hún er ef íbúar í Reykjanesbæ og Suðurnesjum vilja gefa Grænum skátum dósirnar. Grænir skátar hafa starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu og gert góða hluti og við óskum þeim góðs gengis þar en óskum eftir því að viðkvæm starfsemi í Dósaseli verði ekki ákafa þeirra af bráð.

Stjórn Þroskahjálpar á Suðurnesjum.