Grafalvarleg staða Eignarhaldsfélagsins Fasteignar
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þriðjudaginn 16. nóvember bókuðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar - þau Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson – eftirfarandi vegna alvarlegrar stöðu Eignarhaldsfélagsins Fasteignar:
Grafalvarleg staða Fasteignar kallar á endurskoðun á aðkomu Reykjanesbæjar
Nú þegar ársreikningur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar fyrir árið 2009 liggur loksins fyrir og grafarvarleg staða félagsins er öllum ljós er nauðsynlegt að árétta nokkur atriði er varða málefni EFF.
Á undanförnum árum hafa verið unnar skýrslur og úttektir af hinum ýmsu aðilum um málefni Fasteignar. Niðurstöður þeirra virðast nú hljóma sem hjóm eitt, þegar litið er til þeirrar stöðu sem nú er uppi.
Sjálfstæðismenn fullyrtu að Fasteign stæði vel í vor
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa lengi haldið fram ágæti Fasteignar í ræðu og riti, talað fjálglega um hagkvæmnina sem í félaginu fælist og um góða stöðu þess. Skemmst er að minnast fullyrðinga þeirra á bæjarstjórnarfundi þann 6. apríl 2010 þess efnis að bráðabirgðauppgjör fyrir árið 2009 lægi fyrir hjá Fasteign og það sýndi verulegum hagnað.
Nú liggur fyrir að á sama tíma og sjálfstæðismenn fullyrtu um hagkvæmni Fasteignar og verulegan hagnað, þá sjá endurskoðendur fyrirtækisins ástæðu til þess að setja fyrirvara um rekstrarhæfi félagsins í áritun sinni við ársreikninginn fyrir árið 2009. Í framhaldi má spyrja sig hvort eitthvað hafi verið að marka skýrslu Capacent sem birtist skyndilega í miðri kosningabaráttu og þessi atriði voru hvergi nefnd?
Stjórn Fasteignar virðist hafa gert sér grein fyrir vandanum í upphafi árs
Stjórn Fasteignar hefur frá upphafi árs 2010 og jafnvel fyrr gert sér grein fyrir því að í óefni var komið og reynt í framhaldi að ná samningum við lánveitendur en ljóst er að lítið hefur gengið í þeim efnum.
Fjárhagsstaða Eignarhaldsfélagsins Fasteignar er nú með þeim hætti að ekki verður lengur hjá því komist að skoða málin ítarlega og leita allra leiða til að lágmarka það tjón er bærinn virðist nú standa frammi fyrir. Svona getur þetta ekki haldið áfram.
Bæjarfulltrúar heyra fyrst af alvarlegri stöðu í fjölmiðlum
Það kom öllum á óvart að heyra fréttir um að hugsanlega sé verið að leysa félagið upp og að sum sveitarfélög væru nú þegar að ræða um úrsögn úr félaginu. Reykjanesbær er einn af stærstu hluthöfum félagsins og það er með öllu ólíðandi að bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ heyri fréttir af vandræðum félagsins fyrst í fjölmiðlum.
Í ljósi þessarar grafalvarlega stöðu félagsins leggja bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar til að nú þegar verði skipuð nefnd fulltrúa meiri- og minnihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem hafi það hlutverk að fara yfir stöðu bæjarins gagnvart Fasteign.
Óstjórn undanfarinnar ára mun leggja auknar byrðar á bæjarbúa
Alvarleg fjárhagsstaða Fasteignar, Reykjaneshafnar og bæjarsjóðs undirstrikar nauðsyn þess að endurskoða allan rekstur bæjarsjóðs og dótturfélaga því framundan er óumflýjanleg fjárhagsleg endurskipulagning Reykjanesbæjar. Bæjarfulltrúar allir eru skyldugir til þess að gera sitt besta svo að takist að lágmarka þær byrðar sem íbúar bæjarins þurfa axla í framtíðinni vegna óstjórnar undanfarinna ára.
Friðjón Einarsson
Guðný Kristjánsdóttir
Eysteinn Eyjólfson