Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Grænt ljós, gult ljós, rautt ljós
Föstudagur 22. febrúar 2019 kl. 15:05

Grænt ljós, gult ljós, rautt ljós

Við erum stödd í Keflavík árið 1998. Átta ungmenni (þrír bílstjórar) leggja bílum sínum í brekku ofan við gatnamót, sem mynda kross. Á þessum tíma voru japanskir sportbílar vinsælir: Toyota Twincam, Celica, Honda CRX og fleiri tegundir sem ég man ekki í svipinn en það kæmi mér ekki á óvart að þessir bílar væru enn á götunni. Parið í bílnum sem er fyrst í röðinni höfðu verið saman í mörg ár, þrátt fyrir ungan aldur. Þau komu frá erfiðum heimilum og fátækt og ég man að þau deildu saman samloku í bílnum (en samt sem áður áttu þau alltaf sígarettur).
 
Í öðrum bílnum er par sem er nýbyrjað saman og reykja eitrað tóbak úr gosflösku með beygluðum enda. Ég er í þriðja bílnum ásamt þremur öðrum sem ég þekki lítið, nema stelpu sem ég var að hitta. Þau reykja líka öll úr beygluðum gosflöskum, með álpappír og hlusta á hávært þungarokk.
 
Ég heyri varla í sjálfum mér hugsa og set höndina mína hikandi á húninn á afturhurðinni,
en er hræddur um hvað þeim mun finnast ef ég læt mig hverfa. Ég veit hvað er að fara gerast. Þau stunda þetta, þegar að fáir eru á ferli. Þennan leik kölluðu þau Grænt ljós, gult ljós, rautt ljós.
 
Vinkona mín sem situr við hliðina á mér fær skilaboð í símann sinn, hlær og sýnir mér það sem stendur. Skilaboðið er frá parinu í fremsta bílnum. Ég sé að fremsti bíllinn er settur í gang og reykmökkurinn umlykur allan bílinn er hann þenur vélina í botn og hávaðinn eftir því.
 
Umferðaljósin í um 100 metra fjarlægð eru gul og verða fljótlega græn og bíllinn rýkur af stað. Grænt og bíllinn kominn hálfa leið, gult og bílinn nálgast og verður svo rautt – og græn Celican flýgur yfir gatnamótin (á rauðu ljósi) á öllum sínum 150 hestöflum.
 
Seinni bílinn fer af stað; grænt, gult, rautt og hann flýgur yfir á eldrauðu og beina leið niður á Hafnargötu.
Bílstjórinn okkar klárar síðasta smókinn og hendir sígarettunni út um gluggann og setur upp rúðuna. Ég ákveð að opna og fara út en hurðin er læst. Ég tek úr lás í flýti og fer út úr bílnum. Stelpan sem ég var að hitta skrúfar niður rúðuna og kallar „Aumingi“ og bíllinn rýkur af stað.
 
Grænt, gult, rautt.
Guðmundur Magnússon
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024