Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Grænn Reykjanesbær
Föstudagur 18. maí 2018 kl. 15:08

Grænn Reykjanesbær

Síðastliðin 7 ár hef ég unnið með Cornell háskóla í New York að ýmsum verkefnum er varða sjálfbærni og vistvænar orkulausnir. Í samstarfi við Íslenska Jarðvarmaklasann höfum við aðstoðað Cornell í því verkefni skólans að verða fyrsti háskólinn í Bandaríkjunum eingöngu knúinn endurnýjanlegum orkugjöfum á sjálfbæran hátt. Lausnin er að hluta til íslensk fyrirmynd. Cornell, sem er einn af virtustu háskólum í heimi, ákvað árið 2014 að verðlauna íslensku þjóðina fyrir að vera langt á undan öðrum þjóðum þegar kemur að notkun vistvænnar orku og sjálfbærni. Sérstaklega í ljósi þess að þá var yfir 80% af frumorku Íslands fengin úr vistvænum orkugjöfum meðan að enn kom yfir 80% af frumorku heimsins úr olíu, kolum og gasi. Samkvæmt Orkustofnun var sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu um 89 milljarðar króna sama ár og forsetinn tók við verðlaununum fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar kemur fram að hún vill gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Cornell stefnir á að ná þessu markmiði fyrir 2035 þannig að við erum á sömu vegferð og samstarf því  vænlegur kostur með reynslu- og þekkingaryfirfærslu milli aðila.
 
Ég hef áhuga á því að nýta mér þá reynslu, þekkingu og tengsl sem mér hefur áskotnast á þessu sviði til að gera Reykjanesbæ leiðandi í vistvænum lausnum og sjálfbærni. Ég mun beita mér fyrir því að vistvænar leiðir verði valdar í rekstri bæjarins. Stefnan er skýr; Reykjanesbær verði fyrsta kolefnishlutlausa sveitarfélagið á landinu. Hvernig gerum við það? Stærsta málið þegar kemur að kolefnishlutleysi eru bílarnir sem brenna kolefniseldsneyti. Útrýming kolefniseldsneytis bíla er um 2/3 af því verkefni sem við Íslendingar verðum að takast á hendur til að verða kolefnishlutlaus. Ljúka verður sem fyrst orkuskiptum farartækja því samkvæmt tölum frá Orkusetrinu sparast 30 milljarðar á ári í gjaldeyrir sé alfarið skipt yfir í rafmagnsbíla. Rafmagn á tankinn er nærtækasta lausnin og aðrir kostir eru metan, vetni, metanól og lífdísill. Svo eru það skipin þar sem við Íslendingar höfum þegar náð miklum árangri með frumkvæði í vistvænum verkefnum - stærri, færri og hagkvæmari skipum.
 
Í Reykjanesbæ viljum við í hvívetna ýta undir tækifæri til að bæta nýtingu á úrgangi til orkuframleiðslu. Við viljum sjá meiri flokkun á sorpi frá heimilum og fyrirtækjum. Við viljum vinna gegn plastsóun. Við viljum gróðursetja fleiri tré til að binda kolefni. Í skipulagsmálum og byggingarskilmálum viljum við að gert sé ráð fyrir rafbílavæðingu. Flýta vistvænum samgöngum í bæjarfélaginu sem er eins og áður segir stærsti liðurinn í að gera það kolefnishlutlaust. Við viljum hvetja íbúa og fyrirtæki til að kanna kosti rafbíla og skoða möguleika þess að innleiða sem fyrst rafmagnsstrætó í Reykjanesbæ.
 
Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Við getum orðið leiðandi sveitarfélag þegar kemur að sjálfbærni og vistvænum lausnum og lagt okkar á vogarskálarnar að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust innan 20 ára. Samfélagið kallar á endurnýjanlega orkugjafa og nýja sýn í umhverfismálum. Verum öðrum til eftirbreytni og vinnum saman að grænum Reykjanesbæ.
 
Ríkharður Ibsen
Skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024