Grænásgatnamótin
Vegna skrifa hér í Víkurfréttir í síðustu viku um Grænásgatnamótin er nauðsynlegt að fram komi að miðað við samgönguáætlun eru nú 65 milljónir komnar í gatnamótin í ár og 80 á því næsta.
Áætlunin er komin til meðferðar Samgöngunefnd þar sem ég er varaformaður. Það er mikill niðurskurður í samgönguframkvæmdum í ár þannig að það er gott að ná þessu inn og framfyrir fjöldamörg verkefni sem stóðu framar í áætlunum og eru ekki síðri öryggisaðgerðir. Með þeim aðgerðum sem framkvæmdar verða í ár verður hægt verulega á umferð um gatnamótin því sett verður hringtorg í þessum fyrsta áfanga.
Málið er komið á dagskrá vegna þess að þingmenn í stjórn- og stjórnarandstöðu stóðu saman að því að koma málinu í farveg í samstarfi við minni- og meirihluta sveitastjórna á svæðinu síðastliðið haust en í tvígang á síðasta ári voru framlög skorin niður til samgönguframkvæmda.
Ég hef nú í þrjú ári komið nokkuð mikið nálægt forgangröðuninni í samgönguframkvæmdum, fyrst sem aðstoðarmaður ráðherra og nú í samgöngunefnd þingsins og vil segja að það eru auðvitað endalaus verkefni um allt land sem vitað er að munu auka öryggi vegfarenda. Vilji allra stendur til þess. Ekkert verk er í sjálfu sér brýnna en annað í þeim efnum en við einbeitum okkur að þeim köflum þar sem umferð er mest. Og þar sem hún hefur aukist mikið og skyndilega eins og á Grænásgatnamótunum.
Eðli málsins samkvæmt byggir verklagið á áætlunum langt fram í tímann. Sturla Böðvarsson lýsti því ágætlega þegar hann sagði samgönguráðuneytið eins og risavaxið flutningaskip. Það tekur tíma að snúa því og það þarf að huga að stefnubreytingum með góðum fyrirvara. Það er þess vegna mikilvægt að öll umræða um umferðaröryggi sé borin fram af skynsemi og í rósemd.
Hvað þurfa margir að deyja áður en eitthvað er gert í þessu? Svona spurningar hef ég fengið síðan ég "byrjaði í þessum bransa" oftar en ég get talið. Það er erfitt að svara svona spurningum.
Hvað hafa margir dáið í umferðinni vegna þess að ekki var búið að gera meira til að tryggja öryggið? Örugglega margir. Er það samgönguráðherrum og alþingismönnum liðinna tíma að kenna? Það held ég ekki. Hefur bætt öryggi ekki þvert á móti fækkað banaslysum og þar með bjargað fjölda mannslífa?
Það er nefnilega rangt að setja málin þannig fram að banaslys í umferðinni séu á ábyrgð Vegagerðar og samgönguyfirvalda. Slys munu eiga sér stað sama hversu öruggt vegakerfið er. Það sem við getum gert er að reyna að takmarka hættusvæði og í þeim efnum er af nógu að taka; aðskilnaður akstursstefnu, lýsing á gatnamótum, betri merkingar, hraðahindranir, fræðsla og forvarnir ofl ofl. Allt eru þetta aðgerðir sem kosta peninga og þeir eru takmarkaðir. Sérstaklega núna.
Slys eru slys. Þau eru ekki ásetningsverk eða vanrækslusyndir stjórnvalda heldur skyndilegir atburðir sem verða í einni tilviljanakenndri hendingu með hörmulegum afleiðingum á augnabliki. Örkuml eða dauði ástvina vekur með fólki magnvana örvæntingu sem oft umbreytist í reiði í stað sorgar og sú reiði leitar sér útrásar. Þetta þekkir fólk sem hefur komið að slysum sem fagmenn eða t.d. sem fréttamenn. Reiði aðstandenda beinist oft að þeim sem tilkynnir slysið, jafnvel þó það sé gert á nærgætin og faglegan hátt. Þess vegna skiptir það gríðarlegu máli að halda umræðunni úr ásakanafarvegi. Við erum öll sammála um að úrbóta sé þörf.
En umræðan er til bóta. Hún hvetur okkur í pólitíkinni áfram og það sem er meira vert, vekur athygli almennings á hættunni þessum tiltekna stað. Því þarf að halda áfram baráttunni og skrifunum; það mun skila sér í því að fólk fer varlegar þarna um og forðar vafalaust slysum. Ég mun á mínum vettvangi gera mitt besta í að fá þessari aðgerð flýtt og framhaldið.
Róbert Marshall
þingmaður Samfylkingar