Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Gott nafn á glataðri áætlun
Laugardagur 15. nóvember 2014 kl. 10:10

Gott nafn á glataðri áætlun

Ekki var hún glæsileg myndin af fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar sem dregin var upp á íbúafundi í Stapa fyrir tveimur vikum. Stuðst var við úttekt KPMG og skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar. Myndin var vægast sagt svört. Undir áætlun sem kynnt var undir nafninu „Sóknin“ skal herða sultarólina næstu 10 árin og ná skuldahlutfalli Reykjanesbæjar niður í lögbundin 150%. 
Úttekt KPMG og skýrsla Haraldar nær yfir tímabil frá árinu 2002 og til dagsins í dag. Aldrei á tímabilinu hefur skuldahlutfall Reykjanesbæjar verið nándar nærri 150% markinu svo ekki er seinna vænna en að girða sig í brók og ráðast til sóknar.
Íbúafundurinn var Reykjanesbæ til sóma. Hann var í alla staði mjög málefnalegur. Eða kannski réttara sagt málefnalegur í eina átt. Allir voru sammála um að sætta sig við að herða sultarólina enda alkunna að Reykjanesbær er á hausnum. Einhverjir fundarmanna höfðu greinilega lesið samantekt úr skýrslu Haraldar og gátu hneykslast yfir bruðli Reykjanesbæjar að greiða starfsmönnum samtals um 560 milljónir í yfirtíð, álag og launatengd gjöld. Því til viðbótar 115 milljónir í bifreiðastyrki.

Í miðri verkfallahrinunni sem nú er hótað sá enginn fundarmanna ástæðu til að fagna því að Reykjanesbær greiddi starfsfólki sínu sómasamleg laun. Það kom því ekki á óvart að á fyrsta bæjarráðsfundi eftir íbúafundinn var samþykkt að lækka laun bæjarstarfsmanna. Eða hluta þeirra. Flumbrugangurinn við framkvæmdina var slíkur að það er ekki alveg ljóst hversu margir starfsmenn Reykjanesbæjar eiga að taka það á sig að rétta við fjárhag bæjarins. Samkvæmt skýrslu Haraldar eru stöðugildi hjá bænum 670,5. Samkvæmt upplýsingum frá bæjarstjóra eru starfsmennirnir 962. 170 þeirra munu líkast til taka þátt í „Sókninni“ með því að fá launalækkun. Í forsvari fyrir launalækkuninni er einn þaulsetnasti verkalýðsforkólfur á Suðurnesjum. Íbúar svæðisins sem eru það heppnir að vera félagar í verkalýðsfélagi undir hans forystu vita þá væntanlega hverju þeir eiga von á í næstu kjarasamningum. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér alveg sama hvoru megin við borðið þeir sitja.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Sóknin er ómöguleg ef þú hefur ekki trú á því að skora,“ segir sjálfstæðismaðurinn fyrrverandi sem er saklaus af sukkinu. Og hvaða sókn er betri en sú sem fær dæmt mark úr augljósri rangstöðu? Á einum og sama bæjarráðsfundinum var hægt að samþykkja að lækka laun bæjarstarfsmanna en fella tillögu um að föst laun bæjarráðsmanna yrðu felld niður. Eingöngu yrði greitt fyrir setna fundi. Það er víst ekki sama um hvaða vasa er að ræða. Nýi meirihlutinn tók engan þátt í að móta stefnuna sem kom Reykjanesbæ í þessa stöðu. Af hverju ættu þeir þá að taka á sig einhverjar byrðar?

Skýrsla Haraldar Líndal er fróðleg. Hann er fagmaður og hefur gert úttektir á rekstri þrettán sveitarfélaga á Íslandi. Í skýrslunni greinir hann fjármál og heildarrekstur Reykjanesbæjar auk þess að gera tillögur sem tengjast greiningunum. Meðan á skýrslugerðinni stóð breyttust hagir hans en eins og flestir ættu að vita var hann ráðinn bæjarstjóri Hafnarfjarðar nú í sumar. Því var skýrslugerðinni ekki lokið á þann hátt sem til stóð.

Alls eru í skýrslunni gerðar 25 tillögur til úrbóta. Engin tillaga er um hagræðingu á kjörum bæjarfulltrúa. Fimm tillögur snúa að launakjörum bæjarstarfsmanna. Einhverra hluta vegna eru það þær tillögur sem virðist hafa verið hlaupið af stað með fyrst án þess að það verði metið svo af lestri skýrslunnar að þær séu þær mikilvægustu.

Í skýrslunni er  gerður er samanburður á hlutfalli launa af tekjum samtals hjá 10 sveitarfélögum. Hlutfallið hjá Reykjanesbæ er næst lægst og mun lægra en að meðaltali hjá öllum sveitarfélögum landsins. Sama á við um fjölda íbúa á hvert stöðugildi, en 21,2 íbúar eru á hvert stöðugildi í Reykjanesbæ, meðan einungis Garðabær hefur fleiri af samanburðarsveitarfélögunum eða 22,8. Samanburðinum á þó að taka með fyrirvara.

Það er hollt í öllum rekstri að greina útgjöldin og reyna að halda þeim í skefjum en það þarf líka að greina tekjustofnana. Enga slíka greiningu er að finna í skýrslunni. Stór hluti tekna sveitarfélaganna kemur frá útsvarsgreiðslum íbúanna. Þeim mun tekjuhærri sem íbúarnir eru þeim mun hærra verður útsvarið sem rennur til bæjarfélagsins. Með einfaldri greiningu á útsvarstekjum Reykjanesbæjar árið 2013 kemur í ljós að ríflega einn milljarð vantar upp á að útsvarstekjur bæjarfélagsins haldi raungildi miðað við árið 2006. Íbúum hefur fjölgað um ríflega 30% á þessu tímabili og meðaltekjur íbúanna í sveitarfélaginu hafa dregist verulega saman. Þeir sem hafa gott langtímaminni muna að herinn hvarf af landi brott haustið 2006. Einn milljarður til viðbótar á ári á tekjuhliðinni hefði gert gæfumuninn undanfarin ár. En raunin virðist vera sú að fólki með lágar tekjur fjölgar í Reykjanesbæ. Alþingismenn kjördæmisins hvaða flokki sem þeir tilheyra hafa reynst hundslappir þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á svæðinu, þrátt fyrir fögur fyrirheit á sínum tíma.

„Það er bara eðli stjórnmálanna að þeir sem ráða á hverjum tíma hafa mikið vald,“ segir formaður bæjarráðs í Víkurfréttum um leið og hann lýsir yfir sakleysi sínu á þeirri erfiðu stöðu sem nú blasir við.

Vel má vera að það sé óþolandi að brottfluttur Keflvíkingur sem borgar útsvar í Reykjavík sé að fetta fingur út í bæjarmál í Reykjanesbæ. Hjartað slær með heimabænum, því verður ekki breytt. Hugmyndafræðin bakvið svokallaða „Sókn“ er hörmuleg þegar rýnt er í skýrslu Haraldar. Líkast til er ég í minnihluta en geri orð formanns bæjarráðs að mínum:

„Minnihluti getur getur stundum gert lítið annað en benda á. Við reyndum að gera það allan tímann en því miður var ekki hlustað nóg á okkur. Það er þó auðvelt að vera vitur eftir á.“

Áfram Keflavík,
Margeir Vilhjálmsson.