Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Gott er að eiga góða að
Fimmtudagur 31. október 2013 kl. 14:19

Gott er að eiga góða að

Landsmót Æskulýðsambands þjóðkirkjunnar fór fram í Reykjanesbæ helgina 25 til 27. október. Þetta var risastór viðburður! Þátttakendur voru yfir 700 talsins, ungmenni, leiðtogar og prestar frá öllum landshornum. Bæjarbúar hafa vafalítið séð ungt fólk á vappi um göturnar þessa daga, en gestir fengu afnot af tveimur grunnskólum, sundmiðstöð og íþróttahúsi. Bærinn okkar var þess vegna í sviðsljósinu og gestirnir höfðu heldur betur samanburðinn. Slík mót hafa verið haldin  árlega í þrjá áratugi. Í fyrra fór landsmótið fram á Egilstöðum og næst verður það á Ísafirði.

Yfirskriftin að þessu sinni, var „Energí og trú“ en í poppbænum hefur heiti þess dægurlags verið notað yfir þjónustu Keflavíkursóknar við ungt fólk í atvinnuleit. Meðal annars var efnt til karnivals þar sem safnað var í framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar en sá sjóður styður ungt fólk til menntunar. Meðal annars bökuðu kvenfélagskonur í Keflavík pönnukökur sem voru seldar og runnu til þessa málefnis.

Við prestar í Keflavíkurkirkju eru þakklát fyrir þá gestrisni sem bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ og starfsfólk sýndu þessum hópi. Móttökurnar voru slíkar að mótstjórn lýsti því yfir, að þær hefðu tekið fram öllu því sem þau hafa fengið að njóta hingað til. Hið sama sagði frú Agnes Sigurðardóttir biskup sem opnaði mótið.

Fulltrúar bæjarins sem tóku svo vel á móti þessum stóra hópi eiga miklar þakkir skildar og flytjum við þeim blessunaróskir. Gott er að eiga góða að.

Prestarnir í Keflavíkurkirkju

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024