Gott að koma heim
Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir mig, allar þær hlýju og innilegu móttökur sem ég hef fengið hérna heima á Íslandi og fyrir þær frábæru móttökur sem ég fékk þegar nýja íslenska bókin mín Mei mí beibísitt? var kynnt í göngugötunni Kjarna Flughóteli laugardaginn 17. nóvember. Þetta var mikill gleðidagur í lífi mínu, móður minnar og þeirra sem standa mér næst, þegar við tókum á móti öllum þeim fjölda gesta þennan dag í bókaútgáfuveislunni en mamma mín átti afmæli þennan dag og var veislan haldin henni til heiðurs. Víkurfréttir eiga einnig miklar þakkir skilið fyrir það traust sem þeir sýna mér sem höfundi að leggja út á bókamiðin með mér. Frábært fagfólk þar á ferð!
Ég hef fengið svo hlýjar móttökur alls staðar þar sem ég kem að ég er stundum orðlaus yfir öllum faðmlögunum, fallegum orðum í minn garð og hrósum, allt þetta er eins og vítamínsprauta til mín um að gera meira, skrifa meira og halda áfram að gleðja fólk og lesendur mína. Það er svo gott að koma hingað heim til ykkar.
Þegar ég gaf út ensku bókina mína Becoming Goddess fyrr á þessu ári, þá fann ég einnig fyrir hlýjum móttökum en ekkert í líkingu við þessar móttökur núna sem ég er að fá, þegar ég kem hingað heim á Suðurnesin mín með nýja íslenska bók í farteskinu. Hingað heim þar sem næstum allir þekkja alla og það er svo notaleg tilfinning. Ég bý núna í Noregi og þar er gott að vera en á Íslandi er allra best að búa til framtíðar, það er staðreynd. Ísland er landið mitt.
Ég er smábæjarstelpa og verð það ávallt. Mér þykir svo vænt um fólk og heiðarleg mannleg samskipti. Fólk sem kýs að eyða ævi sinni fjarri skarkala höfuðborgarinnar er oft svona fólk sem vill upplifa nánd við þá sem eru þeim samferða í gegnum lífið. Mér þykir vænt um að hitta fólk í næstu matvörubúð, gefa mér tíma og eiga vinaspjall um leið og ég versla í matinn. Svona er það þegar við búum úti á landi, þó mér finnist ég ekki búa úti á landi hérna, þegar svo stutt er til Reykjavíkur.
Mér finnst það forréttindi að búa utan höfuðborgarsvæðisins, það er stutt í allt sem ég þarfnast til daglegs lífs en svo get ég alltaf skroppið í borgina þegar ég þarf að fá tilbreytingu. Ég fæ allt sem ég þarf hérna á Suðurnesjum og það fást margar nákvæmlega sömu vörur hér og fást í Reykjavík, það eru m.a. sömu verslanir og þar innfrá í nokkrum tilfella. Eini munurinn er að þegar ég versla heima í bænum mínum, þá er ég að spara fullt af bensíni, sem er auðvitað miklu ódýrara fyrir mig og ég fæ að hitta fullt af skemmtilegu fólki, lenda á vinaspjalli og síðast en ekki síst þá styrki ég heimabyggð mína með því að versla heima.
Stundum hef ég keypt allar gjafirnar á Suðurnesjum, í stað þess að keyra inn í Reykjavík, þegar mig langar að styðja við heimabyggð mína, gera svæðið sterkara sem ég bý á. Ég uppgötva þá að mér finnst mun meiri ánægja fylgja því að fara inn í verslanir, handverks- og jólamarkaði hér á Suðurnesjum. Ég fæ líka miklu persónulegri og hlýlegri þjónustu og hitti marga í leiðinni sem ég þekki. Maður er manns gaman, það er staðreynd.
Ég verð yfirleitt voða lúin þegar ég ráfa um verslanamiðstöðvar í Reykjavík, fæ hausverk eða verð orkulaus af því að labba um í Kringlunni eða Smáralind. Þar er heldur ekki eins heimilisleg stemning. Ég mæti allt öðruvísi framkomu hjá afgreiðslufólkinu þar heldur en hér. Það er í raun mun persónulegra og skemmtilegra að versla heima.
Ég verð á flakki um allt með bækurnar mínar fyrir jól, þar sem ég kem fram og les upp úr íslensku bókinni minni Mei mí beibísitt? og segi jafnframt frá ensku bókinni minni Becoming Goddess. Ég hlakka til að sjá ykkur og gleðja með upplestri mínum.
Njótum þess að lifa og njótum þess að vera meira með þeim sem okkur þykir vænst um. Komum auga á allt það góða sem þegar er til staðar í lífi okkar og munum eftir að þakka fyrir. Hættum að kvarta og förum að þakka!
Þakklæti opnar dyr gleðinnar inn í líf okkar. Gleðin vex í lífi okkar þegar við tökum eftir henni og vökvum hana með því að tala um hana, brosa meira og hlæja oftar. Allt stækkar sem fær athygli, bæði fólk, góð hugsun og skemmtilegir viðburðir. Það er létt að búa til gleðistund. Eigum gleðilega aðventu og njótum þess að hittast á förnum vegi kæru vinir!
Kær kveðja,
Marta Eiríksdóttir