Gott að búa í Reykjanesbæ
Að undanförnu hefur verið hávær umræða um leikskólagjöld. Það eru ekki mörg ár síðan við stóðum í þeim sporum að sækja um leikskólavist fyrir barn okkar.
Þá var langur biðlisti og þá greiddu foreldar helming af kostnaði við leikskólavistina. Nú er enginn biðlisti og þrátt fyrir hækkanir greiða foreldrar aðeins þriðjung af kostnaði.
Ég sé ekki betur en flest sveitarfélög séu að taka á sig 2/3 af þessum kostnaði og foreldrar að greiða 1/3. Með nýsamþykktum breytingum á gjaldskrá sýnist mér Reykjanesbær alveg í sömu stöðu. Nema þá að hér eru ekki biðlistar og þjónusta til mikillar fyrirmyndar. Flóknara er þetta nú ekki! Svo er það undarlegt að ekki megi ræða heildarmyndina í þessu samhengi s.s.
um ókeypis strætisvagna, ferðakostnað námsmanna, heitan mat fyrir öll börn í grunnskólum, frábæran frístundaskóla, og menningarhús fyrir unga fólkið.
Þetta allt gerir mann stoltan yfir að búa í Reykjanesbæ. Hafa bæjarbúar áður séð eins miklar og jákvæðar breytingar í umhverfismálum og fjölskyldumálum?
Hér finnst mér gott að búa og ég vona að þið séuð mér sammála.
Með vinsemd,
Skarphéðinn Njálsson