Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gólað á götuhorni?
Þriðjudagur 26. apríl 2005 kl. 15:44

Gólað á götuhorni?

Stjórnarliðar í sjávarútvegsnefnd taka ískyggilegum niðurstöðum úr togararalli Hafró af mikilli léttúð. Í Fréttablaðinu í dag saka þeir Guðjón Hjörleifsson formaður nefndarinnar og fulltrúi Sjálfstæðisflokks, og Hjálmar Árnason fulltrúi Framsóknarflokks mig um að fara með hrópum og köllum á götuhornum þegar ég krefst umræðu um slæmar horfur varðandi okkar mikilvægasta og langdýrmætasta fiskistofn.

Þeir um það. Viðbrögð þeirra eru færð til bókar, og verk þeirra verða síðar lögð í dóm kjósenda. Það er þó undarlegt að þessir herramenn sem báðir koma úr útgerðarbæjum; annar frá Vestmannaeyjum og hinn frá Reykjanesbæ, skuli sýna jafn mikið kæruleysi og léttúð í störfum sínum að í stað þess að leita svara við áleitnum spurningum, þá skuli þeir reyna að útmála mig sem vitleysing. Þeir um það, ég læt mér þessa menn í léttu rúmi liggja.

Snúum okkur að kjarna málsins sem þessa menn skortir þrek til að horfast í augu við, enda varla við öðru að búast þar sem þeir eru meðsekir í klúðrinu. Á sunnudag skrifaði ég eftirfarandi í pistli hér:

"Ástæðan fyrir vexti ýsunnar er því ekki kvótakerfið, þó einhverjir kvótasinnar reyni að nota skyndilegan vöxt ýsustofnsins sem haldreipi drukknandi manna í röksemdafærslu fyrir því að kvótakerfið hafi verið að skila árangri í uppbyggingu bolfiskstofna".

Mig langar að fylgja þessu betur eftir.
Ýsan hefur verið í mikilli sókn allan þennan áratug, alls staðar í Norður Atlantshafi. Þetta sést vel þegar skýrslur frá Alþjóða hafrannsóknaráðinu eru skoðaðar. Hér við Ísland klöktust út og komust þrír mjög sterkir árgangar á legg í kringum árið 2000. Svipað gerðist í Barentshafi. Ýsuárgangar árið 1999 og 2000 voru mjög sterkir í Norðursjó og svipað var uppi á teningnum við Færeyjar. Mikil ýsugengd hefur verið á öllum þessum hafsvæðum.

Þetta hefur ekkert með kvótakerfið að gera. Það er til að mynda ekkert kvótakerfi við Færeyjar. Hér er á ferðinni eitthvað líffræðilegt fyrirbæri þar sem ýsan á mismunandi hafsvæðum kemur fram með risastóra árganga nær samtímis. Það er því markleysa að reyna að benda á vöxt ýsustofnsins sem einhvern vitnisburð um það að vel hafi tekist til með uppbyggingu botnfiskstofna hér við land. Þarna er náttúran á ferðinni með stóra árganga. Á sama tíma hlýnar sjórinn umhverfis Ísland og útbreiðslusvæði ýsunnar eykst. Hún finnst nú alls staðar umhverfis landið eins og glöggt kemur fram í niðurstöðum úr ralli Hafrannsóknastofnunar. Reyndar má færa rök fyrir því að kvótasetning á ýsu á sínum tíma hafi verið mikil mistök og ástæða sé til að taka þessa tegund nú úr kvóta. Ýsan hefur þurrkað upp rækju víða um land og ég hef af því áhyggjur að hún eigi eftir að standa þorskinum fyrir þrifum. Keppa við ungþorsk um æti og til dæmis éta mikið af þorskseiðum þegar þau eru á fyrsta æviári og leita botns á haustin. Einnig að þessi ýsumergð eigi eftir að éta alltof mikið af botnlægum hrognum síldar og loðnu. Ýsuverð er lágt og það er alltof mikið af henni. Þennan fisk á bara að veiða.

Ég sé að einhver skrifar í dag á heimasíðu LÍÚ og þykir glannalega hrapað að ályktunum eftir að fyrstu niðurstöður hafa verið birtar úr togararallinu. Mér finnst það alls ekki. Við erum að horfa fram á langa seríu af lélegum árgöngum sem eru að bætast við stofninn á næstu misserum og árum. Niðurstöður benda til að árgangur 2004 sé mjög lélegur, 2003 árgangurinn frekar lélegur. Árgangur 2002 ku vera nærri meðallagi en 2001 árgangurinn er mjög lélegur. Þetta er ekki glæsilegt. Það er mikið umhugsunar- og áhyggjuefni að ekki skuli nást fram betri nýliðun í stofninum á sama tíma og umhverfisskilyrði eru mjög hagstæð árum saman umhverfis landið.

Varðandi fullyrðingar um að veitt hafi verið svo langt framúr ráðgjöf af þorski þá vísa ég því á bug. Það er búið að fylgja ráðgjöfinni eins og framast er kostur í ein 10 – 15 ár. Framúrakstur í veiðum umfram ráðgjöf hefur verið miklu meiri á öðrum hafsvæðum til að mynda við Færeyjar og í Barentshafi. Þar eru þorskstofnar í miklu betra ásigkomulagi en hér. Mat á stærð hrygningarstofn þorsks í Barentshafi hefur til að mynda aukist úr um 200.000 tonnum árið 2000 í um 600.000 tonn árið 2003. Þar er nú mokveiði eins og árangur íslenskra togara þar hefur sýnt með afgerandi hætti nú í vetur. Þorskstofninn við Færeyjar er sömuleiðis talinn í þokkalegu lagi þó þar hafi nokkuð dregið úr veiðum.

Það er mín skoðun að við höfum verið að stýra þorskveiðum hér við land með vitlausum hætti. Við höfum ekki endilega veitt of mikið, heldur höfum við veitt rangt. Það hefur verið gengið of nærri hrygningarstofninum og ætið hefur verið veitt frá þorskinum með loðnuveiðunum. Hvoru tveggja með vitund þeirra fiskifræðinga, embættismanna og stjórnmálamanna sem ráðið hafa ferðinni. Ábyrgð þessa manna er mjög þung.

Sennilega er náttúruleg dánartala á þorski líka miklu hærri en við gerum okkur grein fyrir. Við líðum fyrir það að hafa trassað að stunda hafrannsóknir mörg undanfarin ár. Fjármagn til þeirra er skorið við nögl og áherslurnar rangar. Hafrannsóknastofnun eyðir gríðarlegum tíma og orku í að reyna að telja fiskana í hafinu til að þjóna kvótakerfinu. Jóhann Sigurjónsson forstjóri stofnunarinnar upplýsti í sunnudagsþætti á Skjá einum fyrir réttri viku að þar mældu menn eina og hálfa milljón fiska á hverju ári! Á sama tíma komum við að tómum kofunum þegar við spyrjum sérfræðingana einfaldra spurninga um hvort það geti ekki haft áhrif að við veiðum árlega fleiri hundruð þúsund tonn af loðnu úr vistkerfinu árlega. Ekki árum saman, heldur áratugum saman.

Við erum á villigötum.

Magnús Þór Hafsteinsson, 9. þingmaður Suðurkjördæmis.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024