Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Góður starfsandi og nám á fullorðinsárum
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er í Krossmóa 4a í Reykjanesbæ.
Föstudagur 28. október 2016 kl. 15:44

Góður starfsandi og nám á fullorðinsárum

- Tveir hádegisfyrirlestrar í boði MSS í næstu viku

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður til tveggja hádegisfyrirlestra í næstu viku, annars vegar innan fyrirtækjasviðs og hins vegar kennslufræðasviðs. MSS hefur m.a. það hlutverk að miðla þekkingu til samfélagsins og skapa umræðu um mikilvæg málefni sem þörf er á að veita athygli. Velgengni fyrirtækja og einstaklinga skipta þar miklu.

Miðvikudaginn 2. nóvember fjallar Eyþór Eðvarðsson, stjórnendaþjálfi og ráðgjafi um mikilvægi starfsanda á vinnustöðum og veltir fram spurningunni um áhrif starfsanda á velgengni fyrirtækja. Eyþór hefur birt fjölda greina í íslenskum og erlendum tímaritum, m.a. um tilfinningagreind, stjórnun, samskipti, breytingar, starfsánægju og vinnustaðamenningu. Á fyrirlestrinum verður rætt um kjaftagang, klíkumyndun og baktal og hvað stjórnendur geta gert til þess að sporna við slíku. Áhersla verður lögð á hversu mikilvægt er að halda í góðan starfsanda og að láta slæmt umtal um samstarfsfólk ekki líðast.

Athyglinni verður svo beint að fullorðnum námsmönnum fimmtudaginn 3. nóvember þegar Kristjana Þórarinsdóttir, fyrrum Menntastoðanemandi hjá MSS og dúx í Keili fjallar um það að hefja nám á fullorðinsárunum. Veitt verður innsýn í reynslu fullorðins námsmanns, kosti þess að hefja nám á fullorðinsárum, möguleg áhrif og viðbrögð við kvíða og fullkomnunaráráttu og mikilvægi þess að hafa trú á eigin getu. Kristjana stundar meistaranám í sálfræði,  Cand. Psych. við Háskóla Íslands en hún hefur sjálf háð baráttu við lítið sjálfstraust í námi á fullorðinsárum.

MSS vonast til þess að sjá sem flesta í Krossmóanum og hvetur sérstaklega stjórnendur fyrirtækja, fullorðna námsmenn og alla þá sem hafa áhuga á að hefja nám á fullorðinsárum að nýta tækifærið og sækja innblástur í fróðleg erindin. Fyrirlestrarnir fara fram á 5. hæð í húsnæði MSS, við Krossmóa, frá kl. 12:00 – 13:00, boðið verður uppá léttan hádegisverð.  Óskað er eftir að áhugasamir skrái sig til þátttöku á heimasíðu MSS en aðgangur er ókeypis.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024