Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Góður árangur nemenda FS á Íslandsmóti iðngreina
Laugardagur 30. mars 2019 kl. 06:00

Góður árangur nemenda FS á Íslandsmóti iðngreina

Þann 14.–16. mars var haldið Íslandsmót iðngreina í Laugardalshöllinni og jafnframt var þar kynning á námsframboði framhaldsskólanna. Yfirskrift þessara daga var Mín framtíð sem ætlað var að höfða til unga fólksins og fá það til að velta því fyrir sér hvaða nám vekur áhuga þeirra og hvert það ætlar að stefna í framtíðinni. Margir lögðu leið sína í Laugardalshöllina og höfðu gaman af. Meðal annarra gesta kom Guðni forseti og heimsótti FS-básinn og fékk að prófa hinn eina sanna Pacman-leik í leikjavélinni sem nemendur okkar í rafiðnum og tölvugreinum bjuggu til.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölbrautaskóli Suðurnesja sendi átta keppendur í fjórum greinum og náðu þeir mjög góðum árangri.
Kacper Zuromski varð Íslandsmeistari í forritun. Fannar Ingi Arnbjörnsson varð í öðru sæti í trésmíði. Hildur Sigrún Jóhannsdóttir varð í þriðja sæti í fantasíugreiðslu. Jakob Daníel Vigfússon og Richard Dawson Woodhead urðu í þriðja sæti í liðakeppni í vefþróun. Suðurnesjamenn geta verið stoltir af árangri nemenda Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þeir fá góðan undirbúning fyrir frekara nám og störf í atvinnulífinu.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er með fjölbreytt og gott námsframboð bæði í bóklegum og verklegum greinum. Nemendur sem hafa lokið námi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og farið í frekara nám hérlendis og erlendis hafa staðið sig mjög vel og verið vel undirbúnir fyrir framhaldið.

Þetta er gott að hafa í huga nú þegar forinnritun stendur yfir fyrir 10. bekkinga fyrir næsta vetur en henni lýkur 12. apríl næstkomandi. Því er upplagt fyrir nemendur að hugsa um hvert hugurinn stefnir og hvaða starf þeir vilja leggja fyrir sig í framtíðinni og hvaða námi þeir þurfi að ljúka til að ná því markmiði.

Fyrir hönd Fjölbrautaskóla Suðurnesja,
Kristján Ásmundsson,
skólameistari