Góðar samgöngur
Til þess að góður bær verði betri er nauðsynlegt að hafa góðar samgönguæðar til og frá bænum.
Reykjanesbær býr yfir þeirri sérstöðu að vera með bæði stórskipahöfn og alþjóðaflugvöll í næsta nágrenni. Þar tel ég að liggi mörg fjölbreytt tækifæri.
Til dæmis fara í eðlilegu árferði um tíu milljónir ferðamanna í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar og um þrjár milljónir þeirra koma út úr flugstöðinni og heimsækja landið. Allir þessir ferðamenn þurfa að byrja heimsókn sína á því að keyra Reykjanesbraut til höfuðborgarinnar. Samt getum við ekki enn haft veginn boðlegan!
Reykjanesbrautin er einföld á tveimur köflum og það eru hættulegustu kaflarnir í samgöngukerfi Íslands.
Við fengum samt í gegn eftir mikla vinnu bæði að Reykjanesbraut kæmist á samgönguáætlun og að hringtorgin væru sett fyrir ofan Reykjanesbæ. Við höfum með endalausu tuði náð að færa kaflann frá Hvassahrauni að Krísuvíkurafleggjara fram og verður þessi kafli loksins boðinn út í vor.
Þar með verður hættulegasti kaflinn loksins frá og ættum við að geta keyrt tvöfalda Reykjanesbraut frá Fitjum til Hafnarfjarðar árið 2024.
En verkinu er ekki lokið, enn er eftir kaflinn frá flugstöðinni til Fitja og það verður að fara að byrja að undirbúa þann kafla. Þar verður Reykjanesbær að vera með í ráðum. Ekki má leyfa Isavia, Kadeco og Vegagerðinni að ráða algjörlega ferðinni þar. Þetta eru allt of mikil ríkisfyrirtæki sem eru föst í sínum ferlum og hugsa mikla meira um höfuðborgarsvæðið heldur en hagsmuni okkar hér í Reykjanesbæ.
Reykjanesbær verður að hafa bæjarbúa með í ráðum og hanna brautina með þarfir bæjarins að leiðarljósi, t.d. með tilliti til hvernig væri hægt að tengja Ásbrú betur við Reykjanesbæ svo sá bæjarhluti sé ekki alltaf eins og annað sveitarfélag.
Einnig þarf að vera hægt að tappa af allri þessarri umferð svo ferðamenn komi við í fallega bænum okkar til þess að styrkja verslun og þjónustu.
Svo á innanlandsflugið auðvitað að vera á Keflavíkurflugvelli. Þannig að fólk geti flogið hingað og svo beint áfram í tengiflugi til Vestmannaeyja, Egilsstaða, Akureyrar, Ísafjarðar o.s.frv. Þetta gerir Ísland að betra ferðamannalandi, minkar álagið á vegina og er bara skynsamlegt í alla staði.
Góðar samgöngur eru ein af forsendum velferðar allra fjölskyldna í bænum svo ég tali nú ekki um öryggistilfinningu. Við eigum öll ástvini sem eru mikið í umferðinni og við viljum geta verið örugg og róleg yfir því.
Guðbergur Reynisson,
2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna 26. febrúar.