Góð nýárspredikun í Keflavíkurkirkju
Á nýársdag lagði ég leið mína í Keflavíkurkirkju í hátíðarmessu. Fremur fámennt var, enda eflaust margir heima við að jafna sig eftir áramótagleði. Þeir sem heima sátu misstu hins vegar af fallegum söng og mjög góðri predikun sóknarprestsins, séra Ólafs Odds Jónssonar.
Um langt skeið hef ég ekki hlýtt á eins innihaldsríka stólræðu eins og séra Ólafs. Yfirskrift ræðunnar var, “Hvað boðar nýárs blessuð sól?”.
Ræðan var í senn fræðandi og uppbyggjandi. Hún var auk þess hvatning til okkar um að missa ekki sjónar af voninni á nýju ári. Voninni sem sækir næringu sína í trúna. Voninni þar sem Guð er með í för. Mikil vinna liggur að baki predikun sem þessari. Keflvíkingar eru lánsamir að eiga séra Ólaf Odd að.
Áramótaheit ber gjarnan á góma á þessum árstíma. Flest tengjast þau heilsuátaki og er það vel. Ég vil hvetja lesendur til þess að leggja rækt við trúna á nýju ári. Trúin á Jesú Krist hressir til andar, sálar og líkama. Nýárspredikun séra Ólafs er hægt að lesa á heimasíðu Keflavíkurkirkju.
Birgir Þórarinsson
Knarrarnesi, Vatnsleysuströnd.
Nýárspredikun séra Ólafs Odds af vef Keflavíkurkirkju:
"Hvað boðar nýárs blessuð sól?"
Við skulum biðja:
Við þökkum þér Drottinn fyrir gamla árið gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók. Lát enga beiskju komast að vegna þess sem er að baki og engan kvíða fyrir því ári sem nú er nýhafið. Kenn okkur að nota hverja stund sem þú gefur. Í þínar hendur felum við allt liðið og í trausti til handleiðslu þinnar höldum við inn í nýja framtíð. Vísa okkur vegu þína Drottinn. - Heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen -
Gleðilegt ár
Þegar við leiðum hugann að nýju ári þá vaknar spurningin: Hvað mun hið nýja ár fela í skauti sínu? “Hvað boðar nýárs blessuð sól?”, spyr sálmaskáldið. Hvaða tilfinningar vekur hið nýja ár sem nú fer í hönd? Ber það með sér lán eða ólán? Er tilhlökkun eða kvíði í huga þegar við höldum inn í framtíðina. Eflaust er það öllum fyrir bestu að sjá ekki atburði lífsins fyrir.
En nafnið Jesú stendur skrifað yfir öllum dögum ársins sem fer í hönd: “Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, þá gjörið allt í nafni Drottins Jesú”, segir postulinn. Þetta er grundvallarreglan í lífi kristins manns. Hollt er að hafa hana í huga áður en hafist er handa um eitt eða annað. Sérhvert starf ber okkur að vinna, eins og við værum að þjóna Kristi. Segja má að við mætum Kristi í náunganum. Þá er hægt að vera trúr í því sem fólki finnst léttvægt eða fyrir neðan virðingu sína. Við getum einnig fyrirgefið og borið áhyggjur, því við berum þær ekki ein heldur í Jesú nafni, með trúfastan fylgdarmann okkur við hlið á hverju sem gengur.
Það er fjallað um bænina í textum áramótanna. Bænin er hluti af varanlegum, andlegum, verðmætum sem þurfa að fylgja okkur inn í nýja árið. Eins og bænin um tré sem fái að standa enn eitt árið svo það nái að bera ávöxt. Bænin er ekki aðeins það að leggja rækt við innra líf. Menn sem biðja eru næmir á umhverfi sitt og þarfir þess og bænin getur leitt til aðgerða að fá þeim þörfum mætt.
Mér hefur alltaf fundist athyglisvert að það fólk sem í sögunni hefur lagt stund á mystík (dulúð) t. á miðöldum og allar götur síðan var mjög næmt á umhverfi sitt og samfélag, þvert á það sem menn hafa almennt ætlað.
Bænin á að vera okkur sem andleg orkulind til átaka við lífið. Bæn beinist ekki að því að sveigja vilja Guðs að okkar vilja, heldur miklu fremur að sveigja okkar vilja að hans vilja. Jesús lagði áherslu á þetta í faðirvorinu, þegar lærisveinarnir báðu hann um að kenna sér að biðja. Upphaf bænarinnar er fólgið í því að viðurkenna raunveruleika Guðs, þann hulda, helga og skapandi leyndardóm, sem allt á upphaf sitt í.: "Faðir vor þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn". Það er enginn bæn um að óskir séu uppfylltar, heldur að vilji Guðs verði. "Tilkomi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni". Það er ekkert eigingjarnt við bænina: "Gef oss í dag vort daglegt brauð", heldur felur sú bæn faðirvorsins í sér traust á þeim Guði sem heldur við lífi okkar og að hann muni sjá okkur fyrir veraldlegum þörfum og vel fyrir sjá. Þegar við biðjum "fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum", þá viðurkennum við að okkur sé ábótavant og sáttargjörðin við Guð verði að endurspeglast í sáttargjörð við náungann. Það er gott að byrja nýtt ár með það í huga.
Ég he verið upptekinn af þessu orði sáttargjörð, ég sótti á s.l. ári ráðstefnu í Tallinn í Eistalndi sem bar þessa yfirskrift, Reconciliation, á ensku, sáttargjörð milli Guðs og mann, ólíkra þjóðarbrota og kynþátta. Eistar er nú að læra að lifa í sátt við Rússana eftir að þeir fengu sjálfstæði og tóku upp markaðskerfi. Suður-Afríkumenn reyna nú að lifa í sátt eftir hörmunar aðskilnaðarstefnunnar. Þetta gerist allt án blóðsúthellinga og sagt hefur verið að þetta hafi tekist í S-Afríku vegna þeirra að þeir höfðu leiðtogana, Tutu erkibikskup innan kirkjunnar og Mandela í samfélaginu. En sáttargjörðin á einnig við í einkalífi. Takið þið allt í sátt í ykkar einkalífi, vegna þess að ef þið gerið það ekki þá bitnar beiskjan og biturleikinn á ykkur sjálfum.
"Leið oss ekki í freistni, heldur frelsa oss frá illu", segir í faðirvorinu. Öllu mannlegu lífi er ógnað af freistingum og hinu illa og beðið er um guðlega náð til að styrkja okkur á lífsgöngunni. Faðirvorið er þannig fyrirmynd bæna okkar.
Jesús hvatti menn til að biðja, leita og knýja á, en hann sagði jafnframt að okkar himneski faðir viti hvers við þörfnumst. Við eigum ekki að hafa áhyggjur af fæði og klæði, enda þótt það kunni að leita á hugann hjá fólki um áramót, ekki síst hinum atvinnulausu. Bæn okkar ætti fremur að beinast að ríki réttlætisins og kærleikans og vera bæn fyrir þeim sem líða sökum óréttlætis, fátæktar, skorts, sjúkdóma og ofbeldis.
Sérhver faðir væntir þess að börn hans láti sig varða velferð annarra fjölskyldumeðlima sem eru í neyð, rétt eins og Guð gerir í orði sínu. Hann væntir þess að menn tali ekki aðeins við hann og láti hann síðan um að framkvæma. Hann vill samverkamenn sem þjóna náunganum. Hann biður um þjónandi kirkju, boðandi, biðjandi og þjónandi kirkju. Við megum vissulega koma fram fyrir Guð með eigin áhyggjur og vandamál, en umhyggjan þarf um leið að beinast að öðrum.
Vaclav Havel, fyrrum forseti Tékklands, flutti eitt sinn ávarp á Bandaríkjaþingi, sem vakti mikla athygli og ég hef áður vitnað í vegna þess hve áhugavert það er. Þar segir hann að frelsi mannkynsins sé að finna í hjörtum manna, í árvekni þeirra, auðmýkt og ábyrgð. Havel veit um mjúku gildin sem fosetinn okkar var að minnast á í nýársávarpi sínu. Ef til vill eru þeir báðir sammála Pascal í því að úrslitaorrustan í lífinu fari fram í hjörtum mannanna. Þótt alheimsstyrjöld vofi ekki lengur yfir, þá þýðir það samt sem áður ekki að sigurinn sé unninn.
Havel benti á að við höfum enn þá hrokafullu afstöðu að maðurinn drottni yfir sköpunarverkinu, fremur en að vera hluti af því, og hafi þess vegna rétt til næstum hvers sem er. “Menn eyðileggja stöðugt plánetuna jörð, sem þeim hefur verið trúað fyrir. Við lokum jafnvel augum fyrir þjóðfélagslegum og þjóðernislegum árekstrum í heimi samtímans”. Við virðumst loka augum fyrir því að gróðurhúsaáhrifin er að aukast. Yfirborð sjávar mun hækka um hálfan til einn metir á næstu hundrað árum sem getur haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Siðað samfélag lætur sig varða hag komandi kynslóða en ekki aðeins sinn eigin hag en óábyrgt samfélag gerir það ekki. Steingrímur Hermannsson telur þetta stærsta mál framtíðarinnar.
Havel segir að okkur hafi ekki tekist að setja siðferði ofar stjórnmálum og efnahag. Við hlaupumst þannig undan ábyrgð. Í fjöldanum gengur siðferðisfatan (the moral bucket) frá manni til manns án þess að nokkur vilji taka á sig ábyrgð, - þá ábyrgð, sem nær út fyrir þjóðarhag og eigin hag.
Við urðum vitni að því á umliðnu ári. Dansinn í kringum gullkálfinn virðist orðið eftirsótt markmið og það sem menn setja efst á blað í markaðs- og alþjóðavæðingunni sem er hugmyndafræði samtímans en engan vegin galllaus. Kirkjan hefur alltaf verið gagnrýnin á hugmyndafræði. Kirkjunnar menn gagnrýndu hugmyndafræði 20. aldar sem skóp af sér öfgastefnur sem miðuðu að því að útrýma fólki eða skerða lífskilyrði þess verulega. Nasisminn og fasisminn eru stefnur sem verða ekki alfarið skrifaðar á harðsvíraða leiðtoga heldur lægri miðstéttir sem hófu þessa leiðtoga til skýjanna meðan aðrir voru niðurlægðir eins og Wilhelm Reich hefur gert svo glögga grein fyrir. En hvers vegna voru það kristnir menn sem risu geng þessum öfgaöflum og sögðu nei, hið fræga “Nein” í Barmen í Þýskalandi. Albert Einstein, sem var yfirlýstur guðleysingi, svaraði þeirri spurningu. Það var vegna þess að þeir höfðu endnalega viðmiðun handan þessa heims. Þeir voru ekki orðnir samdauna heiminum og því sem var í kringum þá.
Það er nánast búið að markaðsvæða eiturlyf á Íslandi og sumir tala tjafnvel um að gefa þau frjáls. Þegar ég er að uppfræða fermingarbörnin okkar þá finnst mér stundum íslenskt samfélag ekki vera boðlegt fyrir þau!!
Það er rétt hjá Havel að við verðum að læra að hlýða raust samviskunnar. Guði er oft ýtt út úr samfélagslegu samhengi og gerður að einkamáli manna. Ef lýðræði á að vera verðugt stjórntæki þá verða menn að gera sér jafnt grein fyrir skyldum sínum sem réttindum. Forsetinn okkar var áðan að benda á sterka lýðræðishefð Íslendinga sem hefur dugað þeim vel. Lýðræðið minnir okkur á réttindi og skyldur. En margir spyrja aðeins um réttindi sín. Í lýðræðinu verður hver og einn að bera sína byrði og létta þeim sem halloka standa byrðarnar og gera þá ómyndugu mynduga, vera rödd þeirra sem enga hafa.
Mannkynið hefur allt frá upplýsingaöld upplifað mikla framfaratrú. En framfarirnar hafa margar reynst framaffarir. Framfaratrúin hefur nánast orðið að átrúnaði í samtímanum. Framfarirnar áttu að tryggja velferð allra og margir vildu láta þær taka sess trúarbragða. En þrátt fyrir stóra drauma, sem oft hafa reynst í ósamræmi við raunveruleikann, glíma menn við atvinnuleysi, fátækt og neyð.
1 % Bandaríkjamanna þéna nú eins mikið og 40% hinna fátækustu og 20 % hinna ríkustu eiga 90% af öllum verðmætum í Bandaríkjunum. Ég spyr stefnir í sömu þróun hér heima? Leiðarahöfundur Mbl. fullyrðir að það sé ekki það sem Íslendingar vilja. Forsætisráðherrann okkar hefur verið að andæfa þessu en er nú nánast úthrópaður fyrir vikið. Eru það fjármálaöflin sem eiga að ráða ferðinni í íslensku samfélagi eða eru það lýðræðislega kjörinn stjórnvöld? Svari hver fyrir sig!
Í framfaratrúarbrögðum er raunsæið bannorð vegna þess að það vegur að trúnni á framfarir. Það er ljóst, að upplýsingatíminn gerði takmarkanir náttúrunnar og lífríkisins nánast að engu. Sú staðreynd er að ljúkast upp fyrir mönnum nú og ekki aðeins innan umhverfishreyfingarinnar.
Við verðum einnig vör við andlega fátækt, sem felur í sér mikla hættu fyrir heiminn. Við höfum öll þörf fyrir von, nærgætni og það viðhorf að lífið sé gott, þrátt fyrir annmarka þess. Veraldargæðin eru af skornum skammti og þess vegna verður stöðug samkeppni og átök um þau, en andlegu gæðin eru eilíf og ótakmörkuð og þeim verður að sinna ef ekki á illa að fara. Siðferðilegu gæðin eru einnig til. Þau verða til í samskiptum fólks ef við höfum áhuga á að sinna þeim. En nú er siðfræði ekki kennd við guðfræðideild H.Í. vegna þess að það fást ekki til þess peningar!
Við skulum ekki láta ræna okkur voninni þrátt fyrir andstreymi og mótbyr. Við höfum öll þörf fyrir vonina.
Ég fór með ljóð Þuríðar Guðmundsdóttur við útför hér í gær sem minnir okkur á vonina:
Veistu að vonin er til
hún vex í dimmu gili
og eigir þú leið þar um,
þá leitaðu á syllunum
og sjáðu hvar þau sitja,
lítil veikbyggð vetrarblómin,
lítil og veikbyggð
eins og vonin.
En vonin er ekki sama og framfaratrú. Vonin gengur út frá trúnni á réttlætið og kærleikann og vongóður maður er fullviss um að hið góða muni sigra um síðir. Vonin hjálpar okkur til þess að taka þau skref sem verða til þess að ný tækifæri opnist og hún felur í sér tillitssemi gagnvart náttúrunni og lífríkinu. “Vonin er vakandi manns draumur” eru orð sem höfð eru eftir Aristotelesi. Það merkir að vonin er draumur hugsandi, ábyrgra manna.
Kirkjan hefur stundum látið nægja að vera kirkja einkalífsins og vísað frá sér ábyrgðinni á samfélaginu. Þetta var ekki ætlunin í upphafi, en hefur eftir sem áður orðið að veruleika vegna þess að trúin hefur verið færð inn á svið einkalífs. En Jesús minnir okkur á að við eigum að vera salt jarðar „og ef saltið dofnar með hverju á þá að selta það“, spyr hann? Fagnaðarerindið er boðað til að upplýsa og bæta heiminn, þessa sköpun Guðs, sem er oft svo hart leikinn. Stundum er fólki og landi spillt saman. Látum það ekki gerast á Íslandi. Sem kristnir menn erum við ábyrg fyrir sköpun Guðs og samverkamenn Guðs í því að skapa, ráðsmenn sem geta ekki og mega ekki svíkjast undan ábyrgð. Fagnaðarerindið gefur okkur kjark til þess að horfast í augu við sannleikann, hlusta á reynslu annarra og leita nýrra leiða. Það hjálpar okkur til þess að hafa vakandi samvisku.
Hvers vegna felur fagnaðarerindið þetta í sér? Vegna þess að fagnaðarerindið birtir mönnum nýja vitneskju um gott og vont. Jesús taldi ekki að hamingjan væri fólgin í því að hafa það gott, heldur að vinna að hinu góða, gera aðra hamingjusama, af samkennd við sköpunina, náungann og í hlýðni við Guð. Kristin maður lítur þannig til framtíðarinnar í von. Með því að gera aðra hamingjusama höndlum við hamingjuna sjálf.
Þá er einnig hægt að lifa við takmörk án þess að finnast þau þrengja að sér. Þannig getum við horfst í augu við veruleikann, bæði okkar eigin, samfélagsins og heimsins, án þess að missa móðinn. Það er samfélagsmótandi kraftur í voninni, þeirri von sem reiknar með mótlætinu og krossinum og getur þess vegna borið sorgina og þolað annmarka og áföll lífsins. Við þurfum að kenna uppvaxandi kynslóð að tileinka sér þessa von því þá getur hún tekið mótlætinu. Það er þessi von sem við megum ekki glata í upphafi nýs árs, því þar sem vonin er þar er líf og kjarkurinn til að lifa.
Verum minnug þess að ríki Guðs er stærra en okkar og tími Guðs spannar meira en nútímann og nánustu framtíð. Höldum veginn fram í von því Guð er með í för. Það þarf að ljúkast upp fyrir íslenskri þjóð viji hún helga sig lífnu en ekki dauðanum.
„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó, Guð.
Metta oss með miskunn þinni,
að vér megum fanga og gleðjast
alla daga vora“. (Sl.90)
Amen.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.
Takið postullegri blessun:
Guð vonarinnar fylli oss öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að vér séum auðug að voninni í krafti heilags anda. - Amen.
Flutt af Ólafi Oddi Jónssyni á nýársdag 2004