Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Góð niðurstaða ársreiknings
Þriðjudagur 16. maí 2023 kl. 18:00

Góð niðurstaða ársreiknings

— hækkandi tekjuframlag frá ríkinu, minni þjónusta en í sambærilegum sveitarfélögum

Ársreikningur Reykjanesbæjar lítur í heild vel út, með jákvæða rekstrarniðurstöðu.  Skuldir hafa þó hækkað um rúmlega 4 milljarða miðað við fyrra ár. Þau sveitarfélög sem við berum okkur saman við, að svipaðri stærð, eru ýmist með svipaða eða betri niðurstöðu en önnur verri.

Tekjur og hagnaður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það vekur athygli að framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fara enn hækkandi. Sérstaklega er há upphæð sem er tekjujöfnunarframlag uppá 900 milljónir vegna lágra tekna sveitarfélagsins enda eru tekjur frá Jöfnunarsjóði til Reykjanesbæjar í heild 3,5 milljarðar sem eru 16,3% af heildartekjum sveitarfélagsins.  Einnig er athyglisvert að sjá að sveitarfélagið er að fá um 700 milljónir í þjónustutekjur vegna flóttafólks og innflytjenda samkvæmt ársreikningi.  Greiðslur frá HS veitum í ársreikningi sveitarfélagsins eru 540 milljónir, óvenjuháar 2022. Þrátt fyrir framangreint er hagnaður einungis um 476 milljónir.

Rekstrarkostnaður kemur til með að hækka verulega

Rekstrarkostnaður Reykjanesbæjar sem hlutfall af tekjum er sambærilegur og í viðmiðunarsveitarfélögum en þó þannig að áherslur eru aðrar s.s. að Reykjanesbær er með lægri framlög til íþrótta- og æskulýðsmála heldur en sambærileg sveitarfélög en það stendur til bóta samkvæmt framlögðum tillögum. Einnig er meðalaldur barna sem komast inn á leiksskóla í Reykjanesbæ 22 mánaða meðan að önnur sveitarfélög eru með yngri en 20 mánaða inntöku og jafnvel mun lægri aldur. Þetta stendur til bóta enda eru þrír 6 deilda leikskólar á áætlun og þegar þeir verða teknir í notkun bætist við rekstrarkostnaður uppá 300 milljónir á hvern leikskóla eða 900 milljónir samkvæmt því hvað kostaði 2022 að reka sambærilegan leikskóla. Þetta er áhyggjuefni og þarf því að skoða vel hvers vegna rekstrarkostnaður Reykjanesbæjar er svipaður öðrum sveitarfélögum þegar þjónustustigið núna er lægra.

Mikill uppsafnaður kostnaður er nú vegna mylguvandamála í fasteignum sveitarfélagsins og verður áfram. Ekki er hægt að skrifa það alfarið á skort á viðhaldi en klárlega að hluta til, að spara í viðhaldi er einungis ávísun á mun meiri kostnað síðar.

Eins og sjá má á framangreindu þá er fjárhagsstaða Reykjanesbæjar góð en undirliggjandi mikil kostnaðaraukning. Því ítrekum við Sjálfstæðismenn að mun meiri áhersla verði á að laða að fjölbreytt fyrirtæki og betur launuð störf til að auka tekjur sveitarfélagsins enda er óviðunandi að mesta aukning á tekjum sé í framlögum frá ríkinu sem er ekki sjálfbært til framtíðar.

Margrét Sanders,
Guðbergur Reynisson,
Helga Jóhanna Oddsdóttir,
Sjálfstæðisflokki.