Góð kvöld í Keflavíkurkirkju
Fastur punktur í lífi margra íbúa Reykjanesbæjar er þátttaka í því mikla starfi sem fram fer í Keflavíkurkirkju í viku hverri. Auk hefðbundins messuhalds og sunnudagaskóla á sunnudögum, hittast safnaðarmeðlimir og aðrir velunnarar aðra daga vikunnar og sinna hugðarefnum sínum, hvort heldur er í barna- og unglingastarfi KFUM og K, á foreldramorgnum, kyrrðarstundum eða með þátttöku í starfi annarra félaga sem hafa afnot af húsnæði kirkjunnar.
Nú á vorönn hófst nýr dagskrárliður á miðvikudagskvöldum í Keflavíkurkirkju sem er samstarfsverkefni Kjalarnessprófastsdæmis, Keflavíkurkirkju, Útskálaprestakalls og Grindavíkurkirkju. Yfirskriftin er, Gott kvöld í kirkjunni. Dagskráin hefst kl. 20:00 og lýkur um kl. 22:00. Með dagskránni er leitast við að skapa vettvang fyrir gesti til fræðslu, samfélags og vaxtar. Dagskrárliðir eru fjölbreyttir og taka meðal annars til menningar og lista, siðfræði, sjálfseflingar og leiðtogasýnar.
Sjálfboðaliðar taka á móti gestum og stýra umræðum, en fyrirlesarar koma víða að og má þar nefna Hörð Áskelsson, sr. Árna Svan Daníelsson, Davíð Þór Jónsson og Sigurð Flosason. Hvert þeirra fjallar um afmarkað umræðuefni, en að fyrirlestri loknum er boðið upp á kaffiveitingar og umræður fara fram um efni kvöldsins. Dagskráin hófst í síðustu viku með erindum Páls Fanndal, dr. Gunnars Kristjánssonar og sr. Erlu Guðmundsdóttur um sjálfboðið starf innan kirkjunnar og mættu á sjötta tug gesta á samkomuna.
Miðvikudaginn 19. janúar verður Árni Bergmann rithöfundur með fyrirlestur sem nefnist: "Glíman við Guð og ásökunin um skaðsemi trúarbragða". Þar mun hann ræða þá skoðun sem er orðin útbreidd í okkar samfélagi, að allt sé trúarbrögðum að kenna og betur farnaðist án þeirra.
Sjálfboðastarf við Keflavíkurkirkju er í miklum vexti þessi misserin, en meðal verka sjálfboðaliða er messuþjónusta, súpueldhús og kærleikshópur sem unnið hefur að málum Velferðarsjóðs Suðurnesja. Alltaf eru not fyrir vinnufúsar hendur og frjóar hugmyndir í safnaðarstarfinu og vil ég hvetja þá sem hafa áhuga á þátttöku í þessu starfi að setja sig í samband við presta eða sjálfboðaliða safnaðarins. Ykkur verður vel tekið.
Nánari upplýsingar um Góð kvöld í kirkjunni og aðra starfsemi Keflavíkurkirkju má finna á heimasíðu kirkjunnar, www.keflavikurkirkja.is.
Stefán Árni Stefánsson
Sjálfboðaliði við Keflavíkurkirkju