Glöggt er gests augað
Willum Þór Þórsson skrifar.
Suðurnesin er sjarmerandi svæði. Ég hef bæði starfað fyrir Keflavík og Sandgerði við þjálfun og att kappi við önnur félög á svæðinu. Í gegnum íþróttirnar hef ég kynnst mörgu dugmiklu og skemmtilegu fólki. Ég átti þessi kost fyrir skömmu að eyða laugardegi með frambjóðendum Framsóknar í Reykjanesbæ. Tilefnið var að þjappa hópnum saman og efla liðsheildina sem er mjög mikilvægt þegar fólk ætlar sér að takast á við mörg krefjandi verkefni í framtíðinni.
Sterk liðsheild
Það er mjög skemmtilegt að koma að framboðsmálum og vera í framboði. En markmiðið er auðvitað að ná kosningu og/eða koma sínu fólki að svo hugmyndir hópsins komist til framkvæmda. Þegar framboðslisti verður til þá þekkist fólk ekki endilega innbyrðis. Hugmyndavinnan fer af stað, stefnuskráin er mótuð en það er jafn mikilvægt að einstaklingarnir kynnist, byggi upp traust sín á milli og síðast en ekki síst, gleðjist saman. Þannig myndast sterk liðsheild.
Tíminn sem hvarf
Framboðshópur Framsóknar kom mér skemmtilega á óvart. Fólkið sem listann skipar er einbeitt, áhugasamt og mjög hugmyndaríkt. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá steingleymdi ég hvað tímanum leið. Tvær klukkustundir urðu að sex og nú fylgist ég glöggt með hverju framvindur hjá framboði Framsóknar í Reykjanesbæ. Ég hef fulla trú á að hópurinn nái árangri og þau trúa því sjálf. Nú er staðan sú að þau hafa einn fulltrúa í bæjarstjórn en þurfa að fá amk einn til viðbótar til að koma sínu fólki í allar nefndir bæjarins til að geta haft áhrif á samfélagið. En til þess er leikurinn gerður.
Umræðan
Þar sem ég hef nú myndað persónuleg tengsl við frambjóðendur Framsóknar í Reykjanesbæ þá fylgist ég náið með umræðunni um pólitíkina á svæðinu einkum á vf.is. Nú er t.d. nokkuð áberandi umræða um pólitískan eða ópólitískan bæjarstjóra og sitt sýnist hverjum. En mergur málsins er í raun sá að kosningarnar snúast ekki um val á bæjarstjóra heldur er verið að kjósa í bæjarstjórn. Þegar bæjarstjórn hefur verið mynduð þá er kominn tími til að ákvarða hver verður bæjarstjóri, hvort sem hann verður einn af oddvitum flokkanna, eins og t.d. listi Sjálfstæðismanna vill að verði, eða ópólitískur bæjarstjóri, eins og önnur framboð í Reykjanesbæ vilja að verði gert.
Ég er sannfærður um að farsælt yrði fyrir bæjarbúa að hleypa öflugu fólki Framsóknar að stjórnun bæjarins. Þar er framsýnt, hugmyndaríkt og traust fólk innanborðs með brennandi hugsjónir.
Willum Þór Þórsson, alþingismaður og Kópavogsbúi.