Gleymast fatlaðir einstaklingar í gylliboðum kosninganna?
Kosið verður n.k. laugardag í okkar ágæta bæjarfélagi. Þetta fáum við að gera einu sinni á fjögurra ára fresti og því er mikilvægt að hugsa sig vel um og kjósa þann lista sem við treystum best til að vinna að heilindum að velferð allra íbúa Reykjanesbæjar.
A-listinn, sameiginlegt framboð félagshyggjuaflanna í Reykjanesbæ, hefur eitt framboða í Reykjanesbæ haldið á annan tug opinna málefnafunda sem hafa verið auglýstir vel og rækilega. A-listinn hefur með þessum hætti boðið öllum íbúum Reykjanesbæjar þátttöku í stefnumótunarferlinu.
A-listinn stóð fyrir sérstökum fundi um málefni fatlaðra þar sem farið var yfir með hvaða hætti Reykjanesbær gæti aukið þjónustu við fatlaða einstaklinga og aðstandanda þeirra hér í sveitarfélaginu.
Markviss stefna A-listans í málefnum fatlaðra
Helstu niðurstöður fundarins voru sett fram í stefnuskrá A-listans sem birt hefur verið í heild sinni á heimasíðu A-listans www.xa.is, en þau eru:
- A-listinn ætlar að vinna að því að málefni fatlaðra verði alfarið færð yfir til sveitarfélagsins og gerður verði þjónustusamningur við ríkið.
- A-listinn ætlar að vinna markvisst að því að bæta búsetumál fatlaðra í Reykjanesbæ.
- A-listinn ætlar að auka persónulega þjónustu og liðveislu fyrir fatlaða í Reykjanesbæ.
- A-listinn ætlar að bæta aðstöðu til félags-og tómstundastarfs fatlaðra í Reykjanesbæ.
Núverandi meirihluti D-listans hér í Reykjanesbæ hefur einhverra hluta vegna séð ástæðu til að skera niður þjónustu við fatlaða, m.a. með því að skera niður fjárframlög til málaflokksins og skerða liðveislu um 40% í liðveislutímum talið, og sjá síðan ekkert eftir því.
Svarið við spurningunni hér að ofan er nei, fatlaðir einstaklingar gleymast ekki í stenuskrá flokkanna, en forgangsröðunin og áherslurnar eru mismunandi milli framboðanna.
Ágæti íbúi Reykjanesbæjar. Ef þú vilt búa í sveitarfélagi þar sem mikil áhersla er lögð á málefni fatlaðra, þar sem kapp er lagt á að liðsinna fötluðum einstaklingum til að taka þátt í samfélaginu og að þjónustan verði aukin, þá merkir þú X við A á kjördag.
Eysteinn Jónsson,
foreldri fjölfatlaðs barns og skipar 2. sætið á A-listanum.