Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gjöf sem gleður
Laugardagur 21. janúar 2012 kl. 22:11

Gjöf sem gleður

Mikið guðslifandi er ég feginn að þurfa ekki lengur að streða við að finna jólagjöf handa frúnni. Fylgdist með hugarangri kollega minna reyna að ákveða hvað þeir ættu að gefa betri helmingnum þessi nýliðnu jól. Menn vilja alltaf koma á óvart og það getur reynst þrautinni þyngri eftir því sem árin líða. Þeir yngri eru snillingar í faginu en svo eru aðrir gamlir í hettunni og halda sig við skartið. Blessunarlega alltaf eitthvað nýtt í því. Blómleg flóra nýrra hönnuða sem gefa gömlu hundunum ekkert eftir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar ég hóf búskap með minni heittelskuðu fyrir rétt rúmum aldarfjórðungi, vildi svo illilega til að ég klikkaði á fyrstu jólagjöfinni í hita leiksins. Upptekinn af allt öðru! Ég get lofað ykkur því, að það var ekki fýsileg byrjun. Árin þar á eftir urðu gjafirnar aldrei færri en tvær, fór allt eftir fjölda barna sem bættust í hópinn. Ein gjöf frá mér og ein frá hverju barni til að bæta fyrir skömmina. Geymi ennþá fyrstu jólagjöfina sem hún gaf mér, til að minna mig á vesaldóminn.

Fyrir nokkrum árum ákváðum við síðan að kaupa okkur eitthvað saman, í stað þess að fara í sitt og hvoru lagi í leiðangur. Mér létti stórlega því það getur verið snúið að finna eitthvað fernt, vel á annan áratug. Úff, hjálpi mér! Nú þarf einungis að komast að niðurstöðu um eitthvað eitt, sem við erum sammála um að sárlega vanti. Byrjuðum vel en svo varð þetta snúið. Það getur reynst æði erfitt að meta forgangsröðunina og undanfarin tvenn jól, erum við enn að reyna að ákveða hvorn hlutinn við kaupum á undan. Þeir hljóta að koma báðir héðan af. Segir sig sjálft.

Við höfum þó flest sleppt fram af okkur beislinu undanfarin ár. Þráður viðburðanna hefur vonandi vakið okkur til umhugsunar um ógöngurnar sem við vorum komin í. Brjálæði í sinni verstu mynd. Stöndum þó keik eftir á. Fékk til að mynda einn lítinn pakka þessi jólin, sem innihélt statíf fyrir allar fjarstýringarnar í sjónvarpsholinu. Besta gjöfin í ár og versluð í heimabyggð að auki. Gladdi mig afskaplega mikið.