Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 15. janúar 2004 kl. 15:21

Gjaldskrárbreytingar í Reykjanesbæ

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti  fyrir jól, fjárhagsáætlun fyrir árið 2004. Til grundvallar þessari fjárhagsáætlun liggja m.a. gjaldskrárbreytingar í leikskólum og í tónlistarskólanum. Breytingarnar í tónlistarskólanum hljóðuðu upp á 10 – 28% og á leikskólanum um 23 – 26%. Þegar spurst var fyrir um ástæður þessara hækkana á bæjarstjórnarfundi voru svör bæjarstjóra á þá leið að gert væri ráð fyrir að foreldrar barna á leikskóla greiddu þriðjung kostnaðar og að þessi gjöld væru töluvert ódýrari en í Reykjavík þrátt fyrir hækkun. Bæjarstjóri hafði gert samanburð á nokkrum útgjaldaliðum í Reykjanesbæ annars vegar og Reykjavík hins vegar. Skildist mér á þessum málflutningi bæjarstjóra að hlutirnir væru miklu ódýrari hérna suður með sjó.
Látum það vera þó að þessi samanburður sé ekki marktækur, vegna þess að aðeins er verið að bera saman einstaka kostnaðarliði íbúa sveitarfélaganna. Á móti kostnaði vega hins vegar tekjur og þó að Reykjanesbær hafi komið sæmilega út í þessum gjaldasamanburði bæjarstjóra, yrði útkoman allt önnur ef bornar væru saman tekjur á móti gjöldum í þessum sveitarfélögum. Tekjur Reykvíkinga eru u.þ.b 15% hærri en hér. Ef meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar getur tryggt íbúum sveitarfélagsins sambærilegar tekjur er hægt að réttlæta sambærileg gjöld, fyrr ekki.
Ég gerði það, mér til dægrastyttingar, af því að notast er við þennan samanburð til réttlætingar á gjaldskrárbreytingum, að skoða gjaldskrár leikskóla í sambærilegum sveitarfélögum í kringum okkur þ.e. Hafnarfjörð, Akranes, Garðabæ og Mosfellsbæ

Útkoman var eftirfarandi.
(Miðað er við 8 tíma vistun með hádegisverði, morgun- og síðdegishressingu)
Hafnarfjörður 23.840.-
Akranes 23,951.-
Garðabær 26.172.-
Mosfellsbær 26.800.-
Reykjanesbær  27.000.-

Ekki er hægt að segja að Reykjanesbær komi neitt sérstaklega vel út úr þessum samanburði, enda var þessi samanburður ekki sýndur í bæjarstjórn né auglýstur.
Aðeins er verið að skoða gjald fyrir eitt barn eins og bæjarstjóri gerði. Hætt er við að þessi samanburður yrði enn óhagstæðari ef fleira væri skoðað.

Að undanförnu hafa verðlagsbreytingar verið 3 – 4% á ári. Því tel ég verðlagsbreytingingar af þessu tagi óverjandi og greiddi því atkvæði gegn fjárhagsáætlunni sem byggir á svona undirstöðum. Hvað yrði um stöðugleikann í þessu landi ef aðrir hegðuðu sér með sama hætti og meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Guðbrandur Einarsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024