Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir og tómstundastarf
Föstudagur 21. september 2007 kl. 09:37

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir og tómstundastarf

Nú er nýtt skólaár hafið. Eins og síðastliðinn vetur býður Sveitarfélagið Vogar öllum nemendum Stóru-Vogaskóla upp á hollan og góðan mat í hádeginu, þeim að kostnaðarlausu. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir þýða lækkun á útgjöldum heimilisins um rúmlega 30 þúsund á hvert barn á ári.

Markmið verkefnisins er að veita öllum börnum tækifæri til að borða hollan og góðan mat í skólanum og vera þannig sem best undir það búin að taka virkan þátt í skólastarfinu. Vel nærðir nemendur eru rólegri og betur móttækilegir nemendur.

Frístundakort
Annað markmið verkefnisins er að draga úr útgjöldum heimilisins, þannig að foreldrar hafi meira svigrúm til að gefa börnum tækifæri til að stunda íþróttir og tómstundir. Sem fyrr segir lækka útgjöld heimilisins um rúmar 30 þúsund krónur fyrir hvert barn á heimilinu, sem er nálægt árlegum æfingagjöldum í flestum íþróttum og tómstundum.

Í nokkrum stærri sveitarfélögum er boðið upp á svokölluð Frístundakort, en í Sveitarfélaginu Vogum var valin sú leið að fella niður gjaldið á skólamáltíðirnar og þar með skapa svigrúm í heimilisbókhaldinu til aukinna frístunda.

Það er því val foreldra að nýta þá fjármuni fyrir börn sín, frekar en í önnur útgjöld heimilisins. Það er von bæjarstjórnar að foreldrar nýti sér þetta tækifæri börnum sínum til heilla, en íþróttir og tómstundastarf er ein besta forvörn sem fyrirfinnst.

Ungmennafélagið Þróttur hefur nú kynnt starfsemi sína mjög vel með bréf til barna i sveitarfélaginu. Þar geta þau vonandi fundið eitthvað við sitt hæfi.

Eina sveitarfélagið á landinu með gjaldfrjálsar skólamáltíðir
Sveitarfélagið Vogar er eina sveitarfélagið á landinu sem býður öllum nemendum grunnskóla upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Það er alls ekki sjálfsagt að fella gjaldið niður og mikilvægt að árangur sé af verkefninu. Um þessar mundir er verið að meta árangur síðasta skólaárs og er margt sem bendir til þess að það hafi gengið nokkuð vel, sérstaklega meðal nemenda á yngsta og miðstigi. Hins vegar er ljóst að ekki eru allir foreldrar að nýta þetta svigrúm til þess að bjóða börnum sínum upp á meira íþrótta- og tómstundastarf. Að auki eru vísbendingar um að ekki séu öll börn að nýta sér þjónustu mötuneytisins alla daga.

Mötuneyti skólans í Tjarnarsal er eitt glæsilegasta og besta mötuneyti landsins og öll aðstaða til mikillar fyrirmyndar. Starfsfólk skólans og mötuneytisins leggur sig fram um að skapa jákvæða og góða stund í mötuneytinu þannig að öllum líði vel.

Það er mjög mikilvægt að allir nemendur mæti í matinn á hverjum skóladegi og beri virðingu fyrir matnum og þeim sem elda hann. Á þann hátt næst það markmið verkefnisins að bjóða öllum börnum hollan og góðan mat í skólanum og gera þau þannig betur undirbúin til þess að taka virkan þátt í skólastarfinu. Að auki nýtast fjármunirnir þannig sem best og matarmenningin verður jákvæð og skemmtileg fyrir alla.

Nýr rekstraraðili og heilsustefna
Á þessu skólaári hefur orðið sú breyting að Vitinn með Stefán Sigurðsson matreiðslumeistara í broddi fylkingar, hefur tekið við rekstri og matseld í mötuneytinu. Bæjarstjórn bindur miklar vonir við það samstarf, en Vitinn sér jafnframt um rekstur mötuneytis Sandgerðisbæjar. Samstarfið grundvallast á þeirri hefð og viðmiðum sem skapast hafa í heilsuleikskólanum Suðurvöllum. Markmiðið er þannig að heimfæra það góða starf sem þar hefur verið unnið síðastliðin ár yfir á öll skólabörn í sveitarfélaginu.

Við, þ.e. foreldrar og forráðamenn nemenda í Stóru- Vogaskóla verðum að hvetja börnin til að nýta skólamötuneytið alla daga þannig að árangur af verkefninu verði sem mestur. Hollur og staðgóður hádegisverður skilar sér í ánægðari nemendum og bættum námsárangri, því er mikilvægt að allir leggist á eitt.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024