Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 14. janúar 2004 kl. 13:47

Gjaldfrjáls leikskóli og framsækin fræðslunet

Öflug menntastefna frá leikskóla og upp í háskóla er það sem öllu skiptir fyrir tækifæri komandi kynslóða og heilbrigði atvinnulífs á Íslandi. En íslensk stjórnvöld eru hinsvegar föst í fortíðinni þegar kemur að atvinnuuppbyggingu og menntamálum og klappa sama steininn áratugum saman án þess að líta til annarra átta. Allt kapp er lagt á stórbrotnar stóriðjuframkvæmdir og engu eirt á hálendi Íslands þegar kemur að framkvæmd draumanna miklu. Auk þess að byggja upp arðbæra og hófsama stóriðju og virkjanir á hinsvegar fyrst og fremst að leggja verulegt fjármagn og kraft í nýja menntastefnu sem tekur til allra skólastigaanna. Djörf og markviss menntasókn er það sem við þurfum á að halda, hvort sem kemur að byggðapólitík eða atvinnustefnu.

Framsækin fræðslunet
Fræðslunetin hafa orðið aflvakar mikilla tækifæra fyrir fjölda fólks fyrir utan höfuðborgarsvæðisins. Það má hiklaust staðhæfa að þau séu best heppnaða byggðaaðgerð seinni tíma enda hafa þau verið byggð upp af fádæma krafti og framsýni. Þrátt fyrir það að þau hafi margsannað gildi sitt og veiti fjölda fólks aðgang að nýjum tækifærum er skilningur stjórnarflokkanna á gildi þeirra dapurlega lítill. Varla fékkst fé af fjárlögum til að halda í horfinu með rekstur fræðslunetanna. Hvað þá til að sækja fram. Fyrir utan það þá er þeim gróflega mismunað fjárhagslega samanborið við aðbúnað sambærilegra stofnana annarsstaðar á landinu. Fræðslunetin eru á meðal þess besta sem við eigum í byggðunum utan höfuðborgarinnar og þau á markvisst að efla og styrkja. Ekki að halda þeim við hungurmörk.

Gjaldfrjáls leikskóli
Á næstu árum þarf að eiga sér stað menntasókn sem tekur til allra skólastiganna. Til að mynda þarf að kanna kosti þess að hefja skólaskylduna fyrr og tryggja samfellu í lífi nemandans frá fæðingarorlofsdögum. Margvíslegar umbætur þurfa að eiga sér stað á skólamálunum til að okkur takist að byggja upp kraftmikið og fjölbreytt samfélag þar sem fyrsta flokks menntun stendur því að baki. Mikil vinna býður á næstu misserum við að móta nýja skólastefnu sem svarar kalli tímans og færir íslenskt menntakerfi til framtíðar.

Grunnstefið á alltaf að vera jafnrétti til náms, óháð efnahag, en markmiðið menntun að hæfi einstaklingsins. Inn í þá umræðu kemur að sjálfsögðu fyrirkomulag leikskólanna. Þar á markmiðið að vera gjaldfrjáls leikskóli fyrir öll börn frá eins árs aldri. Núna er þeim kostnaði velt yfir á foreldrana og það er óréttlátt. Það mismunar og kemur niður á þeim sem síst skyldi; unga barnafólkinu sem er að borga námslánin og koma sér upp heimili. Unga fólkinu þar sem kynslóðareikningarnir eru kolrangir og byrðarnar allt of þungar sé miðað við kynslóðirnar á undan. Þetta er samfélagslegt óréttlæti sem á að vera forgangsmál að leiðrétta. Árlegur kostnaður við gjaldfrjálsan leikskóla er sambærilegur og við það að fella niður eignaskattinn. Og meti nú hver fyrir sig hvort er mikilvægara og réttlátara.

Starfsmenntun undirstaðan
Áherslurnar á vægi verknáms í framhaldskólum eru litlar og námið verið hornreka um langt skeið. Afleiðingarnar eru m.a. hátt brottfall sem á sér ekki hliðstæðu. Námsmenn lenda á vergangi í skólakerfinu og í stað þess að eðlilegur hluti þeirra fari í iðn, verk eða listanám lenda margir í bóknámi sem þeir hafa engan áhuga á og flosna því upp úr skóla og hætta. Námið hentar þeim ekki.

Samfylkingin hefur markað ítarlega stefnu til eflingar starfsnáms og styttri námsbrauta. Það er eitt af okkar helstu þingmálum í vetur og munum við halda sérstakt málþing um það síðar á misserinu. Þetta er á meðal brýnustu verkefna menntamálanna og verður að taka hressilega á til að bæta úr þeim bráðavanda sem staða verkmenntunar er í skólakerfinu.

 

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024