Gimli og Njarðvíkurskóli í alþjóðlegu Comeníusarverkefni
Leikskólinn Gimli í Reykjanesbæ ásamt Njarðvíkurskóla hafa fegnið styrk frá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB til þess að taka þátt í alþjóðlegu verkefni sem nefnist Comeníusarverkefni. Verkefnið byggir á samstarfi milli leikskóla, grunnskóla og framhaldsskólastiga í a.m.k. þremur Evrópulöndum. Verkefnið er til tveggja ára.
Markmið verkefnisins er að styrkja samstarf á milli evrópskra skóla og skólastiga með því að koma á sambandi milli kennara og nemanda og auka þekkingu á menningu og tungu annarra þjóða. Markmið íslensku skólanna er að styrkja enn frekar samstarf á milli leik- og grunnskóla. Verkefnið okkar er unnið í nánu samstarfi við skóla frá Ítalíu, Spáni, Wales, Frakklandi og Ungverjalandi. Verkefnið hefur fengið nafnið "Side by side in education" (hlið við hlið í námi).
Fyrsta ráðstefna með verkefnastjórum var haldin í Sevilla á Spáni janúar 2008 og önnur í Feneyjum á Ítalíu í nóvember 2008.
Þriðja ráðstefnan var síðan haldin hér í Reykjanesbæ nú í lok apríl og tókst með eindæmum vel. Gestirnir fengu að njóta alls þess besta sem bæjarfélagið okkar hefur uppá að bjóða. Við fórum m.a. með gestina að skoða Stekkjarkot, Víkingaheima, Orkuverið jörð og Bláa lónið. Einnig fengu gestirnir að upplifa samvinnuna á milli Njarðvíkurskóla og leikskólans Gimli í raun. Að lokum fengu gestirnir að vera við opnun listahátíðar barna í Duus húsum sem var einstök upplifun fyrir þá.
Viljum við fyrir hönd comeniusarhópsins á Íslandi koma á framfæri bestu þökkum til allra þeirra sem komu að ráðstefnunni með einum eða öðrum hætti. Erlendu gestirnir snéru ánægðir til síns heima eftir góða viðkynningu af okkar frábæra bæjarfélagi.
Með kærri kveðju, Comeniusarhópurinn á Íslandi.
Sólveig Bjarnadóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Hafdís Helga Þorvaldsdóttir, Harpa Magnúsdóttir
Helena Rafnsdóttir og Katrín Baldvinsdóttir