Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 5. febrúar 2004 kl. 18:16

Getuskipting

Nokkur síðustu ár höfum við staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að nemendur hér hafa ekki náð sama árangri í samræmdum prófum grunnskólans og í flestum öðrum byggðarlögum. Bæjaryfirvöld hafa lagt áherslu á að þessu þurfi að breyta og að mikill áhugi og góður vilji til þess arna sé innan fræðsluráðs, hjá skólunum og meðal foreldra. Við eigum á að skipa góðu og glæsilegu skólahúsnæði, vel búnu tækjum og tólum til kennslu. Æ fleira ungt fólk sækir í kennaranám og vonandi fáum við að njóta starfskrafta þeirra hér að námi loknu. 
En það eitt og sér dugar ekki til árangurs í skólastarfi. Ýmislegt getur staðið skólastarfi fyrir þrifum s.s. viðhorf til náms, menntunar og skóla, fjöldi réttindalausra og reynslulítilla kennara, stórir blandaðir bekkir þar sem námsgeta og áhugi er á skalanum frá núlli upp í tíu.

Ef við viljum virkilega og af einurð vinna að jákvæðum breytingum í skólastarfinu tel ég að við verðum að horfast í augu við staðreyndir sem lengi hafa blasað við en fáir þorað að taka á. Það liggur í augum uppi að einn kennari – hversu fær og menntaður sem hann er – getur aldrei “kennt/sinnt” 30  mismunandi nemendum í bekk svo vel sé. Nemendum með ólíkar þarfir, ólíka námsgetu, ólíkar væntingar til skólans og námsins, ólík áhugasvið, ólíkt bakland. Niðurstaðan verður oftast sú að enginn nemandi fær í raun þá þjónustu sem honum ber og hann þarfnast.

Góðu nemendurnir eru afskiptir og fá ekki verkefni við hæfi. Þeir komast upp með það að ganga vel í náminu og fá góðar einkunnir án þess að þurfa mikið fyrir því að hafa. Skólinn veitir þeim  ekki tækifæri til að reyna virkilega á sig í náminu og tileinka sér vinnulag sem gagnast í öllu námi bæði nú og til framtíðar. Nám er jú ekkert nema vinna, þrotlaus vinna og gott skipulag. Vinnufælnu, áhugalausu nemendurnir komast upp með að vera latir og áhugalausir og þeir sem eiga af einhverjum ástæðum við námsörðugleika að stríða, eru seinfærir fá ekki þá aðstoð sem þeir í reynd þyrftu til að þeim geti liðið vel í skólanum. Góðu nemendurnir eru gjarna litnir hornauga og kallaðir “nördar”, “proffar” og “lúðar” og nemendur með námsörðugleika finna oft sárt fyrir vanmætti sínum við hlið þeirra sem meira mega sín. Starfið í kennslustofunni verður einhvers konar miðjumoð sem kemur  engum að fullu gagni. 

Ég efast ekki um vilja allra sem að skólamálum standa til að efla skólastarfið og skapa góðan, kröftugan og metnaðarfullan skóla. Þess vegna á ég bágt með að skilja þessa tregðu í skólakerfinu. Ég sem foreldri og kennari vil sýna áhuga minn á skólamálum  í verki og koma með tillögu. Tillagan felst í að getuskipta 9. og 10. bekk í þeim greinum sem teknar eru til samræmds prófs en blanda hópunum í öðrum greinum. Getuskipting – sem nánast hefur verið bannfært orð í munni skólafólks í 30 ár – gæti komið öllum til góða. Ég segi og skrifa öllum. Ég blæs fullkomlega á þau rök að getuskipting sé slæm fyrir sjálfsmynd nemenda. Seinfær nemandi veit að hann er seinfær hvar í hópi sem hann stendur og finnur ekki hvað síst til vanmáttar síns í hópi getumeiri nemenda Í hópi jafningja hefur hann tækifæri til að vera góður, jafnvel bestur. - Getumestu, áhugasömustu og vinnusömustu nemendurnir fengju loks að glíma við verðug, ögrandi verkefni.  Þeir þyrftu að leggja sig fram og tileinka sér skipulögð vinnubrögð til að ná árangri. Þeir þyrftu ekki lengur að fara með það sem mannsmorð að þeir hefðu metnað til að standa sig vel í skólanum. Þeir þyrftu ekki lengur að liggja undir ámæli fyrir áhuga og metnað í náminu. - Vinnufælnu, áhugalausu nemendurnir fengju aðhald, athygli og uppörvun til að sýna hvað í þeim býr í reynd og myndu eflast mjög í náminu. Sjálfsmyndin myndi styrkjast og þeim yrði það leikur að læra. Viðhorf þeirra til skólans og námsins myndi örugglega verða jákvæðara. - Þeir nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða fengju alla þá aðstoð sem þeir þyrftu á að halda og myndu örugglega njóta sín betur í skólaumhverfinu.
 

Ef við erum í raun ákveðin í að snúa þróuninni við með sameiginlegu átaki þá er allt hægt. Þetta er bara framkvæmdaratriði. Ég er sannfærð um að þessi tilraun, yrði hún gerð,  myndi bæta árangurinn, efla metnað, auka námsgleði og vellíðan nemenda í skólanum.
Með kærri kveðju.

Jórunn Tómasdóttir
Vatnsholti 5c
230 Keflavík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024