Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 15. maí 2003 kl. 22:51

Getur þú skúrað 900 fermetra á 4 tímum?

Kæri bæjarstjóri! Ég fór að vinna hjá ræstingafyrirtæki fyrir stuttu sem sér um þrif í Heiðarskóla. Ég er búin að segja upp vegna ótrúlegs óréttlætis sem fær að viðgangast í skjóli atvinnuleysis. Þar sem Bærinn sér um að ráða ræstingarfyrirtækin hjá skólunum vildi ég vekja athygli á þessu máli í von um að það verði tekið á málunum. Mér fannst það verk sem mér var falið að vinna ótrúlega mikið og gat engan veginn gert allt sem verklýsingin sagði til um þannig að ég fór að afla mér upplýsinga.Ég varð mér úti um teikningu af svæðinu og komst að því hver fermetrafjöldinn var. Ég ræddi við verkalýðsfélagið hér í bænum og afhenti þeim verlýsingu og teikningu ásamt launaseðli. Ég fékk því miður lítið annað en máttlaus viðbrögð þaðan og ekki virtist eins og þeir gætu neitt gert í málinu því þetta væri svo flóknir útreikningar og teygjanlegir og þar fram eftir götunum. Ég sneri mér því til Eflingar því þar gilda sömu samningar. Þar veit fólk greininlega alveg hvað það er að gera og þar fékk ég loks svör varðandi það hvað eðlilegt gæti talist að fara yfir mikið svæði á áætluðum tíma.

Staðreyndirnar eru þessar:
1. Ég var að ræsta er u.þ.b. 900 fermetra svæði af skólastofum, salernum o.fl.
2. Áætlaður tími eru 4 klst. en þetta er ekki tímavinna heldur klárar maður sitt verk og getur svo farið.
3. Samkvæmt Eflingu er þumalputtareglan sú að 833 fermetrar eru ígildi 8 klst. vinnu. (www.efling.is)
4. Launin fyrir þessa vinnu mína voru rúmlega 76 þús sem er ekki alveg lægsti taxtinn en nálægt því.
5. Niðurstaða er þessi: Ég var að vinna rúmlega tveggja manna vinnu sem einn einstaklingur getur augsýnilega ekki unnið svo sómi sé að.

Ég tek það fram að ég ræddi náttúrulega við vinnuveitandann og fékk lítið annað þar en ábendingar um að þar sem ég hefði unnið þarna í svona stuttan tíma, væri ég ekki komin inn í hlutina og væri bara að gera mikið úr hlutunum. Þegar ég benti honum á að hann væri að fara illa með sitt starfsfólk sagði hann mér á að það væru nú aðrir sem hefðu færra starfsfólk í sínum skóla.

Hér með hef ég komið þessu á framfæri. Ljóst er að ég hef persónulega engan hag af því en vonast einungis til þess að Bærinn taki þetta til athugunar. Mér þykir slæmt þegar svona óréttlæti fær að vaða uppi og menn komast upp með að fara illa með þá lægst launuðu sem oft á tíðum eru útlendingar sem ekki þekkja sinn rétt.
Ég var í þeirri stöðu að geta látið í mér heyra og sagt síðan upp en ekki eru allir svo lánsamir.

Gætir þú athugað hvernig þessi mál standa?
Segir Bærinn ekki svona fyirtækjum upp ef skólarnir kvarta?
Tekur Bærinn bara lægsta boði eða?

Með von um að réttlætið nái fram að ganga og Bærinn sjái sóma sinn í að líða ekki svona hluti.

Kveðja - Guðrún S. Gísladóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024