Getur tap verið hagstætt?
– Guðni Þór Gunnarsson skrifar
Talsvert hefur verið fjallað um ársreikning Reykjanesbæjar síðustu vikurnar. Fjármálastjóri bæjarins hefur í þeirri umræðu látið hafa eftir sér að reksturinn sé hagkvæmur en ársreikningur sýnir samt gífurlegt tap.
Hvernig getur viðvarandi taprekstur verið hagkvæmur? Ég á nokkuð erfitt með að skilja hvað fjármálastjóri Reykjanesbæjar er að fara með yfirlýsingu sinni.
Á árinu 2013 tapaði bæjarsjóður um 540 milljónum króna. Öll vitum við að þegar við eyðum meiru en við öflum þá þurfum við að fá lán. Það hefur bæjarsjóður gert og rúmlega það. Tekin voru ný lán upp á 1,4 milljarða til að fjármagna tap og afborganir eldri lána Reykjanesbæjar.
Ársreikningur bæjarins segir þá einföldu sögu að kostnaður er meiri en tekjur og þess vegna þurfti bærinn að fjármagna sig með nýjum lántökum. Það er ekki vegna þess að reksturinn sé hagkvæmur, heldur þvert á móti. Reksturinn er ekki sjálfbær og það veit aldrei á gott.
Rekstur bæjarfélags er rétt eins og rekstur heimilis, tekjur þurfa að vera jafnar eða hærri en útgjöldin annars lendum við í vandræðum. Þá þurfum við að redda okkur t.d. með því að taka út lífeyrissparnaðinn, selja fjölskyldusilfrið eða ef við höfum veðhæfar eignir með því að taka lán. Það hefur Reykjanesbær gert síðstu ár.
Undanfarna mánuði hefur bærinn vígt falleg hús og ýmsa garða og annað sem er mjög fallegt og skemmtilegt. Þetta er hins vegar dýr skemmtun og minnir á árið 2007 þegar við gátum gert allt sem okkur langaði. Er ekki kominn tími til að bæjarfélagið verði rekið miðað við forsendur ársins 2014. Ég kýs ábyrga fjármálastjórn og set mitt X við Á-listann.
Guðni Þór Gunnarsson,
endurskoðandi.