Getur orðið sátt?
Sátt í pólitík og pólitískri umræðu var ákall forseta vors við innsetningu hans í embætti. Skilaboð sem eiga rétt á sér þar sem heiðarleiki ríkir en sátt næst ekki þar sem svik á svik ofan eru vinnubrögð nýs meirihluta í Garði.
Bæjarfulltrúar D-listans hafa sýnt vilja til að vinna í sátt og standa við sín loforð gagnvart kjósendum. Þeir hafa lagt sig fram við að trúverðugleiki einkenni störf þeirra fyrir íbúa Garðs. Á baki þeim stendur allur D-listinn og 70% bæjarbúa.
En hvernig getur orðið sátt ef þeir sem rændu völdunum og kenna sig við íbúalýðræði en hafa samkvæmt skoðanakönnunum aðeins 30% bæjarbúa að baki sér. Hvernig getur sú sátt litið út þegar þeir sem stjórna hafa ekki umboð til þess frá kjósendum. Hvenær skiptir íbúalýðræðið máli sem N- og L-listar kenna sig við?
Kolfinna S. Magnúsdóttir rauf samstarfið án allrar skýringa fyrir samstarfsfólki sínu og kjósendum D-listans. Kolfinna seldi umboð sitt og æru sem bæjarfulltrúi D-listans og 55% kjósenda hans fyrir persónulega hagsmundi sína. Þar er algjörlega gengið framhjá hagsmunum annarra íbúa Garðs, meðan hún skarar eld að eigin köku með stuðningi L- og N-lista.
Það verður engin sátt fyrr en Kolfinna S. Magnúsdóttir hefur gert hreint fyrir sínum dyrum og skýrt út fyrir íbúum Garðs á Íbúafundi hverjar voru hinar raunverulegu ástæður brotthvarfs hennar úr meirihluta D-lista. Sú staðhæfing að ágreiningur í málefnum skólans sé orsökin er uppspuni og hefur ekki við rök að styðjast. Það vita bæjarfulltrúar L- og N-lista.
Nú hefur meirihlutinn svikið það loforð bæjarstjórnar Garðs að farið verði að ábendingum um úrbætur sem fram komu í úttekt um starfsemi Gerðaskóla í nýlegri skýrslu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það var kveðið á um að nýtt stjórnunarteymi kæmi að skólanum. Sömu stjórnendur hafa verið endurráðnir og nýr skólastjóri fellur á fyrsta prófinu. Gera má ráð fyrir að á næstunni birtast greinar um sannleikann í því máli. Þetta eru alvarlegustu svik Kolfinnu S. Magnúsdóttur og meirihlutans við nemendur Gerðaskóla og foreldrar þeirra. Við allt samfélagið í Garði.
Skoðanamunur kjörinna fulltrúa er eðlilegur og mikilvægt að sem flestar skoðanir fái umræðu og þær virtar. Að rökræða og rýna til gagns er merki um þroska stjórnmálamanna án ósættis eða persónulegrar hagsmunagæslu. Þar skilur í milli bæjarfulltrúa D-listans og meirihlutans í Garði. Þar sannast máltækið að hver uppsker eins og hann sáir. Að reita illgresið í sínum eigin garði og henda því yfir í garð nágrannans verður ekki til þess að rósaskrúði vaxi og dafni. Illgresið leitar alltaf upprunans og kemur upp um eigandann að lokum og svartir hrafnar kætast. Ef það verða þau vinnubrögð sem nýr meirihluti í Garði ætlar áfram að vinna eftir verður engin sátt.
Ef heiðarleg umræða, niðurstaða löglegs meirihluta færir ráðið í Garðinum mun D-listinn vinna í sátt að hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess eins og ákall forseti vors benti svo réttilega á.
Ásmundur Friðriksson.
Fv. bæjarstjóri í Garði.