Gerum góðan bæ enn betri og fallegri
Umhverfið er hluti af daglegu lífi okkar allra. Fallegt nærumhverfi gleður okkur sem hér búa og vekur einnig jákvæð viðbrögð hjá þeim sem sækja okkur heim.
Undanfarin fjögur ár hef ég átt sæti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og verið formaður umhverfis- og skipulagsráðs. Það hefur verið ánægjulegt að starfa að þessum málaflokki ásamt góðum hópi fólks sem hefur starfað innan ráðsins og frábæru starfsfólki sviðsins sem á degi hverjum heldur umhverfi okkar fallegu. Ný bæjarhlið og áhersla á að auka trjágróður sem bæði prýðir og skapar skjól eru dæmi um umhverfisverkefni sem unnið hefur verið að. Göngustígar og fjórir hreyfigarðar sem staðsettir eru í: skrúðgörðunum í Keflavík og Njarðvík, í Kópunni og á Ásbrú auðvelda okkur að gera hreyfingu að hluta af daglegu lífi.
Skipulagið er mikilvæg umgjörð
Tillaga að nýju deiliskipulag fyrir Berg og Gróf var kynnt á íbúafundi í sl. viku. Nálgun á verkefnið felst ekki hvað síst í því að hafa skýra sýn fyrir uppbyggingu sem í þessu tilfelli markast af því að nálgast með heildstæðum hætti: íbúabyggð, svæði fyrir hótel, fallegt hafnarsvæði auk þess sem náttúran fær að njóta sín. Skipulagið mun auðvelda bæjarbúum og gestum að njóta þesarar perlu í hjarta Reykjanesbæjar. Ég tel mikilvægt að halda áfram að við höldum áfram að vinna með þessum hætti.
Umhverfislistaverk og vegvísar
Frumkvæði bæjarbúa er mikið og ég tel mikilvægt að við gerum það sem í okkar valdi stendur til að vinna góðum verkefnum framgöngu. Norðurljósaturnar Guðmundar R. Lúðvíkssonar eru frábær hugmynd og unnið er að því að finna turnunum góðan stað. Umhverfis- og skipulagsráð fagnaði skemmtilegri hugmynd Daníels Alexanderssonar, en hún felst í þv í að fólk „haldi á“ brúnni milli heimsálfa. Ráðið samþykkti að skoða framkvæmdir sem auðvelda fólki aðgengi að þeim stað sem hentar fyrir myndatökur sem veita þetta sjónarhorn, þ.e. að fólk „haldi á“ brúnni á milli heimsálfa. Fjölgun vegvísa er einnig í undirbúningi, markmið þess verkefnis er að vekja athygli gesta á þeirri þjónustu sem í boði er í Reykjanesbæ.
Fjölbreytt atvinnulíf – líftækni og ferðaþjónusta
Jákvæð teikn eru á lofti í atvinnulífinu. Þörungaverksmiðja á Ásbrú er nýtt og spennandi verkefni og góð viðbót við þau fyrirtæki sem fyrir eru á svæðinu. Á Reykjanesi eru fjölbreytt atvinnuverkefni sem hafa skapað ný störf t.d. í fiskeldi.
Ferðaþjónustan er orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum okkar og stefnir í metfjölda ferðamanna á þessu ári, en í janúar fjölgaði ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll u m 40% m.v. sama mánuð á sl. ári. Ferðaþjónustan er sprottin úr jarðvegi nýsköpunar. Mikill kraftur einkennir greinina og fyrirtækin sem starfa innan hennar. Sjálf hef ég starfað að uppbyggingu Bláa Lónsins undanfarin 15 ár. Það er skemmtilegt og í raun ákveðin forréttindi að taka þátt í slíku verkefni. Nálægðin við Bláa Lónið og Flugstöð Leifs Eiríkssonar skapa okkur forskot sem við eigum að nýta. Duushús, lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar verða áfram mikilvægt aðdráttarafl fyrir ferðamenn og með frekari uppbyggingu á svæðinu mun mikilvægi Duushúsa eingöngu aukast.
Ég mun áfram að leggja mitt af mörkum við að vinna að framgangi Reykjanesbæjar og því óska eftir þínum stuðningi í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ þann 1. mars.
Kær kveðja,
Magnea Guðmundsdóttir
Bæjarfulltrúi og upplýsingafulltrúi Bláa Lónsins