Gerum betur í heilbrigðismálum
Heilbrigðismálin þarf að taka föstum tökum og beita þeim meðulum sem við þekkjum í rekstri til að nýta fjármuni betur og hraðar. Ekki má horfa framhjá kostum einkaframtaksins í þessum málaflokki. Þar liggja raunar stærstu tækifærin til að auka frelsi og draga úr miðstýringu. Falla verður strax frá núverandi stefnu heilbrigðisyfirvalda sem hafa haft gríðarlega ríkisvæðingu að leiðarljósi, án umbóta. Það dylst engum að að á Íslandi er fullt af kunnáttufólki í þessum geira en þrátt fyrir ómælda fjármuni úr vösum skattgreiðenda hefur kerfið brugðist víða.
Sífelldur niðurskurður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, líkt og íbúar á Suðurnesjum hafa ekki farið varhluta af, dregur úr öryggi íbúa og skerðir um leið lífsgæði. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja aðkomu heimamanna að stjórn heilbrigðisstofnana svo þekking á aðstæðum í hverju tilviki sé til staðar. Sveigjanleiki í ráðningu starfsfólks, svo sem með verktöku sérfræðilækna og virkni annarra hjúkrunarstétta í daglegum rekstri, eru grundvöllur starfsemi slíkra stofnanna. Í Reykjanesbæ hafa útsjónarsamir og duglegir einstaklingar boðið heilbrigðisráðherra til samstarfs í rekstri heilsugæslu, vitandi að þörfin er knýjandi. Það er einkennilegt að verða vitni að því að ráðherra slær á útrétta hönd, þar sem heiftin gagnvart aðkomu einkaaðila í heilbrigðismálum yfirtekur skynsemina. Þessu verður að snúa við strax.
Þá er sjálfsagt og eðlilegt að auka sérhæfingu í tengslum við verkefni spítalanna, ekki síst þar sem biðlistar eru langir. Einföld útboð á verkum, svo sem aðgerðum og endurhæfingu, gætu til dæmis verið leið til að stytta slíka lista á hagkvæman hátt. Svæðin í grennd við höfuðborgina eru upplögð fyrir slík verkefni. Allt þetta getur leitt til aukinnar þjónustu við þá sem þurfa á að halda.
Gerum betur.
Björgvin Jóhannesson
Höfundur sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.