Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gerðaskóli á grænni grein
Fimmtudagur 19. maí 2011 kl. 00:59

Gerðaskóli á grænni grein

Gerðaskóli hélt sína árlegu Vorhátíð laugardaginn 14. maí sl. þar sem nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans gerði sér glaðan dag saman. Hápunktur dagsins var þó þegar fulltrúi Landverndar kom og afhenti skólanum Grænfánann í annað sinn við mikinn fögnuð viðstaddra.


Nemendur og starfsfólk skólans hafa unnið markvisst að umhverfismálum undanfarin ár. Í skólanum er umhverfisnefnd sem samanstendur af fulltrúum starfsfólks og fulltrúum nemenda, einn úr hverjum bekk. Einnig hafa Erna Marsibil Sveinbjarnardóttir og Kristjana Kjartansdóttir lagt nefndinni lið, en þær eru miklar áhugamanneskjur um umhverfismál og mikill fengur í þeirra aðstoð. Eftir hvern fund umhverfisnefndar ræðir fulltrúi bekkjarins við samnemendur sína um áherslur mánaðarins og þannig eiga allir bekkir rödd í nefndinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Allir nemendur og allt starfsfólk skólans hafa skrifað undir Umhverfissáttmála Gerðaskóla og er hann öllum sýnilegur á göngum skólans. Helstu markmið sáttmálans eru að auka umhverfisvitund nemenda og starfsmanna og draga úr sóun verðmæta. Þema skólans næstu tvö árin eru átthagar og lýðheilsa. Í hverjum mánuði setur umhverfisnefndin sér þó ákveðin markmið. Í þessum mánuði er áhersla lögð á að spara vatn og rafmagn. Önnur áhersluatriði eru t.d. að ganga eða hjóla í skólann, draga úr notkun á einnota umbúðum og nýta nánasta umhverfi til vettvangsferða og útikennslu. Á tveggja vikna fresti skiptast bekkirnir á að fara út og tína rusl af skólalóðinni. Þau skila síðan skýrslu um hvernig ástandið var og hvernig gekk. Umhverfisnefndin fer reglulega í hverja stofu og metur ástandið þar. Nemendur hafa hæsta rödd í þessari skoðunarferð og þeir hengja upp mislitar mynd af Garðskagavita í hverri stofu eftir frammistöðu bekkjarins. Í tónmennt hafa nemendur nýtt ýmislegt úr náttúrunni í nágrenni skólans til þess að búa til hljóðfæri. Skólinn fær núna í vor góðan styrk frá Yrkjusjóði eða 134 plöntur sem verða gróðursettar í samstarfi við Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Garðs.


Það er stefna skólans að halda áfram á sömu braut og gera enn betur í umhverfismálum.


Frekari upplýsingar um verkefnið „Skólar á grænni grein“ er að finna á heimasíðu Gerðaskóla http://www.gerdaskoli.is og á heimasíðu Landverndar http://www.landvernd.is/graenfaninn.


Umhverfisnefnd Gerðaskóla.