Geirmundur Kristinsson: Að gefnu tilefni II
Vegna háværrar umræðu síðustu daga um mig og mín starfslok í Sparisjóðnum langar mig að taka eftirfarandi fram.
Ég hef starfað alla mína starfsævi í Sparisjóðnum í Keflavík eða í rúm 45 ár. Á þessum tíma hef ég gegnt hinum ýmsu störfum í Sparisjóðnum eins vel og ég hef getað. Ég hef vafalaust tekið rangar ákvarðanir, einkum og sér í lagi þegar maður hefur þann lúxus að geta skoðað þær eftirá. En það hefur örugglega ekki verið viljandi gert, hvað þá til að skaða aðra.
Ég kannast ekki við að hafa þvingað menn til samninga við mig, hvorki um starfslok mín né annað og ég held að flestir geti borið því vitni. Þess vegna finnst mér það ekki að öllu leyti sanngjörn umræða um starfslok mín, að látið sé liggja að því að ég hafi náð þar fram einhverju sem jaðri við þjófnað eða blekkingar. Svo er alls ekki, ég fékk sex mánaða laun greidd án vinnuframlags og það var gert samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi við stjórn sjóðsins sem byggði á mínum starfssamningi.
Ég skil mætavel að margir sem töpuðu peningum á falli Sparisjóðsins skuli vera sárir og reiðir. Það er ég líka enda tapaði ég öllu mínu stofnfé sem var umtalsvert. Ég get hins vegar því miður ekki breytt þeirri stöðu sem stofnfjáreigendur eru í og er alveg eins og hjá þeim tugþúsundum sem voru hluthafar í hinum föllnu viðskiptabönkum. Það fé sem lagt var í fjármálafyrirtækin er tapað og kemur ekki til baka.
Mér er tjáð að nú standi yfir rannsókn á vegum FME á hinum fallna Sparisjóði og eftir fréttum að dæma mun önnur rannsókn fara fram á falli sparisjóðakerfisins í heild sinni. Ég hef ekki verið kallaður að þeirri rannsókn eða verið gerð grein fyrir lagalegri ábyrgð minni ennþá en að sjálfsögðu mun ég axla hana þegar og ef að því kemur.
Það hafa verið settar á laggirnar stofnanir til að láta þá sæta ábyrgð sem hafa brotið af sér og ég vona að við búum áfram í samfélagi þar sem það er gert af sanngirni og festu. Ef einhverjum er þægð í því þá get ég fullvissað fólk um að ég persónulega á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Umræðan núna bitnar þó mest á þeim sem standa mér næst og hafa sér ekkert til saka unnið. Ég get eingöngu beðið um að þeim verði hlíft og fólk finni það hjá sér að sýna aðgát í nærveru sálar.
Eins og ég hef sagt áður vona ég svo sannarlega að SpKef, sem reistur er á grunni hins gamla Sparisjóðs standi af sér áföll og komist sem fyrst í hendur heimamanna.
Geirmundur Kristinsson.