Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Geir Jón Þórisson í baráttusæti xD í Suðurkjördæmi
Föstudagur 14. desember 2012 kl. 17:24

Geir Jón Þórisson í baráttusæti xD í Suðurkjördæmi

Eftir vandlega umhugsun og mikla hvatningu víða að hef ég tekið ákvörðun um að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi og óska eftir stuðningi í 5. til 6. sæti prófkjörsins.
Ég hef frá unga aldri stundað ýmis ábyrgðastörf bæði á vettvangi stjórnvalda sem og víðar. Þann tíma sem ég starfaði sem yfirmaður í lögreglunni valdi ég að halda mér frá öllu stjórnmálastarfi. Nú þegar störfum á þeim vettvangi er lokið hef ég aukinn tíma, þekkingu og þörf fyrir að vinna að þeim stóru og brýnu verkefnum samfélagsins sem fyrir liggja.

Staða margra í samfélaginu í dag er slæm. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ungar fjölskyldur flosna upp, sjá þrekmikið fólk sligað af skuldum og vinnufúsar hendur aðgerðalausar. Reynsla mín af fyrri störfum hefur kennt mér að sama hversu dökkt útlitið er þá er ætíð leið úr vandanum svo fremi sem mannvirðing og heiðarleiki sé leiðarljós þeirra sem varða veginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég, eins og svo margir, óttast þá atlögu sem núverandi stjórnvöld hafa gert að hornsteinum þjóðarinnar. Umgengni um valdastóla hefur orðið til að rýra virðingu dómstóla, kirkjunnar, alþingis og annarra stoða hins íslenska samfélags. Jafnvel stjórnarskráin sjálf hefur ekki fengið frið fyrir óvönduðum vinnubrögðum. Ófriðarfleygum hefur verið skotið milli þeirra hópa sem þurfa að vinna saman ef ekki á illa að fara. Samtök launamanna jafnt sem vinnuveitanda hefur verið sagt stríð á hendur. Þjóðin ítrekað klofin í afstöðu til mála sem sátt þarf að ríkja um. Grundvallar atvinnuvegum landsins svo sem sjávarútvegi, orkuvinnslu og landbúnaði hefur verið stefnt í voða. Á meðan renna tækifæri okkur úr greipum.

Með þátttöku minni í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vil ég freista þess að hljóta umboð míns fólks í Suðurkjördæmi til að sameina í stað þess að sundra. Ég vil styrkja byggð í kjördæminu með nýtingu atvinnutækifæra og finna leiðir til að auðvelda þjóðinni allri að brúa þau illvígu fljót sem við nú stöndum frammi fyrir.

Nú sem aldrei fyrr er þörf á yfirveguðum og vönduðum vinnubrögðum. Ég tek því það skref að bjóða mig fram til slíkra starfa, fyrir fólkið og með fólkinu. Ég sækist því eftir 5. – 6. sæti á prófkjörslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Með vinaþeli,
Geir Jón Þórisson