Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Garðvangur engum bjóðandi
Föstudagur 6. maí 2011 kl. 18:32

Garðvangur engum bjóðandi

Fyrir nokkru síðan þurfti ég ásamt mínum nánustu að koma öldruðum tengdaföður mínum á öldrunarheimili. Við áttum svo sem ekki margra kosta völ og tókum því með þökkum að fá inni fyrir gamla manninn á Garðvangi í Garði.
Mér varð hins vegar ekki um sel þegar ég sá herbergið sem gamla manninum var ætlað að búa í. Það var örugglega minna en tíðkaðist með barnaherbergi í íbúðum fyrir áratugum.

Tengdafaðir minn hafði ekki mikið í kringum sig í herberginu enda var það ekki hægt. Rúmið komst illa fyrir, ég sá þegar því var mismunað inn í herbergið.

Rúminu var skáskotið upp á rönd og pláss herbergis á móti þurfti að nýta til að koma rúminu inn. Með erfiðismunum var svo hægt að smella því niður upp við vegg.

Næst var að setja örlitla kommóðu undir gluggann þar sem hægt var að hafa útvarp, önnur lítil dragkista komst fyrir gegnt rúminu.

Lítið sjónvarp komst ekki fyrir í herbergi gamla mannsins. Var því brugðið á það ráð að setja upp á vegg sérstakan arm fyrir sjónvarpið við enda rúmsins.

Loks var hægt að koma fyrir einum stól framan við rúmið. Þar var ekki pláss fyrir fleiri. Það var ekki gert ráð fyrir nema einum gesti í senn. Væru gestir fleiri þurftu þeir að opna hurðina og fara fram á gang. Vaskur var í herberginu.
Mér fannst þetta ömurleg vistarvera. Það er svívirða að bjóða gömlu fólki upp á svona kytrur. Það er skömm að þessu. Mig grunaði aldrei að aðbúnaður gamals fólks væri með þessum ósköpum fyrr en ég kom inn á Garðvang. Svona aðbúnaður er liðinn hér í hlaðvarpanum hjá okkur!

Við eigum þess ekki kost að berja þessi herlegheit augum fyrr en við þurfum sjálf eða okkar nánustu að nýta þessar kompur á Garðvangi.

Það er hörmulegt að við skulum ekki búa betur að öldruðum svo þeir geti lifað með reisn síðustu æviárin. Allir eiga rétt á að geta lifað mannsæmandi lífi, þá ekki sízt aldraðir. Húsnæði fyrir þetta fólk á að vera til fyrirmyndar, rúmgott og auðvitað með sér snyrtingu sem fylgja skal herberginu.

Rétt er að undirstrika að hér var ég eingöngu að tala um bágborið húsnæði aldraðra í Garðvangi í Garði. En starfið þar með öldruðum sýnist mér vera með ágætum og er ekki hægt að kvarta yfir því. Það er ástæða til að mæra starfsfólkið.
Það er ótrúlegt hvað starfsfólkið getur gert fyrir dvalargesti og veit ég þó að þarna, eins og víða annars staðar, er allt undirmannað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gylfi Guðmundsson