Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 26. apríl 2002 kl. 08:16

Garður: Kjósendur ráða

Einn af frambjóðendum H-listans, Árni Árnason, sendir frá sér nokkrar línur í síðustu Víkurfréttum. Ég ætla mér ekki að svara í sama dúr og hann skrifar varðandi aðdróttanir og brigslyrði heldur benda í þrjá punkta. lesendum til glöggvunar. Í grein vakti ég athygli á því að núverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar hefði nú stuttu fyrir kosningar gefið undir fótinn með loðnu orðalagi að hann gæti hugsað sér að gerast sveitarstjóri í Garði.Ég benti á að með því móti væri hann orðin þátttakandi í kosningabaráttu í tveimur sveitarfélögum. Það væri óeðlilegt. Ég vil einnig benda á, að Ellert hefur ekki svarað því hvort hann sé sveitarstjóraefni H-listans í Garði eða ekki. Margir telja þetta brandara hjá Ellert, en hann er manna bestur og hæfastur til að kveða uppúr með það.
Brigslyrði Árna og aðdróttanir um að ég hafi ákveðið að vera eingöngu sveitarstjóri sumra Garðmanna eru vart svaraverðar. Auðvitað hef ég eins og margir aðrir bæjar- og sveitarstjórar fullan rétt á því að hafa stjórnmálaskoðanir. Ég hef aldrei farið leynt með það að ég er Sjálfstæðismaður og einnig stuðningsmaður F-listans og hef viljað vinna þessum tveimur fylkingum sem mest gagn.Þegar fólk kemur með erindi til mín sem sveitarstjóra eru viðkomendur ekki spurðir um pólitíska skoðun. Það fá allir sömu þjónustu á skrifstofu Gerðahrepps.Auðvitað veit Árni að þetta er svona . Ég tel einnig að það hljóti að vera hugsun allra sem setjast í sveitarstjórn frá hvaða lista sem menn koma að vinna fyrir íbúana og byggðarlagið í heild sinni sama hvort þeir tilheyra meiri- eða minnihluta. Ég trúi ekki öðru en menn vinni þannig.
Í grein sinni segir Árni, að H- listinn standi að öllum þeim framkvæmdum sem framundan eru og standi með þeim öllum. Þessi yfirlýsing er mjög athyglisverð í ljósi þess að fulltrúar H- listans í hreppsnefnd sátu hjá við afgreiðslu 3ja ára áætlunar sveitarfélagsins, þar sem stefnumörkun í framkvæmdum næstu ára var mörkuð. Enn athyglisverðara er að annar fulltrúinn, sem sat fundinn var enginn annar en Árni Árnason sjálfur. Svona geta menn skotið sig í fótinn.

Ágæti lesandi. Þann 25.maí n.k. meta kjósendur kosti og galla framboðanna. Við trúum því og treystum að kjósendur meti störf núverandi meirihluta og framtíðaráform og greiði atkvæði sitt í samræmi við þá niðurstöðu,sem þeir komast að.Það eru kjósendur, sem ráða. Við verðum að hlýta þeirri niðurstöðu, þótt sumir hverjir hafi átt erfitt með það.

Sig.Jónsson,sveitarstjóri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024