Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Garðmenn vilja selja Hitaveitu Suðurnesja vatnsveitu sína
Föstudagur 2. janúar 2004 kl. 15:03

Garðmenn vilja selja Hitaveitu Suðurnesja vatnsveitu sína

Fjárhagsáætlun Gerðahrepps fyrir árið 2004 gerir ráð fyrir lántöku uppá rúmar 59 milljónir. Með því verði haldið í horfinu þ.e. við erum ekki að auka lántökur, segir Sigurður Jónsson, sveitarstjóri í greinargerð með fjárhagsáætlun. Á árinu 2003 var tekið lán til skuldbreytinga til að lækka greiðslubyrðina.Gert er ráð fyrir því að selja Vatnsveitu Gerðahrepps til Hitaveitu Suðurnesja h.f. og fyrir það fáist 50 milljónir króna. HS hefur samþykkt að hefja viðræður um kaup. Hefja þarf samningaviðræður og undirbúninga að sölu nú strax eftir áramót. Greinargerð sveitarstjóra er meðfylgjandi:

Fjárhagsáætlun Gerðahrepps fyrir árið 2004 er lögð fram til fyrri umræðu í hreppsnefnd Gerðahrepps mánudaginn 29.desember 2003. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði tekin til síðari umræðu og afgreiðslu á fundi hreppsnefndar miðvikudaginn 7.janúar 2004.Framvegis þarf að stefna að því að áætlunin verði afgreidd í desember mánuði, en Félagsmálaráðuneytið samþykkti þessa tilhögun nú.
Áætlunin er lögð þannig fram að í fremsta dálki endurskoðuð áætlun ársins 2003. Í miðdálk er áætlun ársins 2004 og í þriðja dálk er mismunur frá áætlun ársins 2003.
Forsendur eru þær að gert er ráð fyrir að launaliðir hækki um 3,5 %. Vitað er að kjarasamningar eru lausir og geta hugsanlega leitt af sér launahækkanir umfram forsendur fjárhagsáætlunar. Einnig er vitað að niðurstöður starfsmats munu liggja fyrir fyrri hluta árs, sem einnig geta haft áhrif á launaliði. Forsendur sem að framan greinir eru almennt notaðar hjá sveitarfélögum, en reikna má með  að endurskoða þurfi launaliði þegar líður á árið.
Hvað rekstrarliði áhrærir er ekki gert ráð fyrir vísitöluhækkunum heldur reiknað með óbreyttu, sem þýðir í raun niðurskurð. Stofnanir verða að taka á þessum málum.
Hér á eftir mun ég gera grein fyrir helstu atriðum fjárhagsáætlunar þ.e. tekjum,rekstri og framkvæmdum.

Tekjur

Í hreppsnefnd náðist full samstaða um gjaldastefnu fyrir árið 2004. Það ber sérstaklega að fagna því að hreppsnefnd skuli vera einhuga um álagningastefnu sveitarfélagsins.
Útsvarsprósenta verður áfram 12,70 % en heimilt er að nota 13,03% álagningu.Áætlunin gerir ráð fyrir að útsvarstekjur verði rúmar 239 milljónir,sem er 15 milljónum hærra en árið áður.
Mörg sveitarfélög tóku nú þá stefnu að hækka álagningu fasteignaskatta bæði hvað varðar álagningu á fyrirtæki svo og að hækka álagningu holræsagjalda og vatnsskatt.
Samkvæmt áætlunin fyrir árið 2004 er ekki gert ráð fyrir hækkunum. Sérstaklega er rétt að benda á að álagning fasteignagjalda á atvinnurekstur er langlægst í Garði í samanburði við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Það má einnig benda á þá stefnu hreppsnefndar að hafa byggingaleyfisgjöld í lægri kantinum og að miða lóðarleigu aðeins við eitt prósent af fasteignamati.
Við viljum trúa því að hér sé um jákvæðan stuðning við atvinnulífið að ræða, sem muni skila sér til sveitarfélagsins.
Fyrir liggur að hækka þurfti álagningu vegna sorpeyðingar, þar sem nú ber að leggja á raunkostnað. Sorpeyðingargjald verður nú kr. 12.130 á íbúð og  og sorphirðugjald kr. 6000 á íbúð. Fyrirtækin þurfa nú sjálf að sjá um að koma sorpi frá sér og greiða eftir sérstakri gjaldskrá fyrir það.
Sérstaklega miðað við þessar forsendur þótti ekki ástæða til að hækka álagningaprósentu. Einnig má benda á að kjarasamningar eru framundan og það er ekki gott innlegg í þá umræðu að sveitarfélögin gangi á undan með of miklum hækkunum á álögum á íbúana og fyrirtækin.

Lántaka, sala á Vatnsveitu

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2004 gerir ráð fyrir að taka lán uppá rúmar 59 milljónir. Með því höldum við í horfinu þ.e. við erum ekki að auka lántökur. Á árinu 2003 var tekið lán til skuldbreytinga til að lækka greiðslubyrðina.Gert er ráð fyrir því að selja Vatnsveitu Gerðahrepps til Hitaveitu Suðurnesja h.f. og fyrir það fáist 50 milljónir króna. HS hefur samþykkt að hefja viðræður um kaup. Hefja þarf samningaviðræður og undirbúninga að sölu nú strax eftir áramót. Áfram þarf að skoða möguleika á skuldbreytingu.
Nokkuð hefur verið unnið að því að skoða möguleikann á Fasteignafélagi en niðurstaðan er sú að það sé ekkert heppilegri kostur heldur en lántaka.Til skamms tíma getur það litið út sem vænlegur kostur en þegar til lengri tíma er litið sé það ekki heppilegur kostur.
Áætlunin gerir ráð fyrir svipuðum tekjum frá Jöfnunarsjóði og áður .Tekjur af fasteignaskatti verða um 2 milljónum hærri og er það fyrst og fremst vegna fjölgunar íbúðarhúsnæðis.
Heildarskatttekjur verða á árinu 2004 kr. 355.790 þú.


Rekstur

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að rekstur sveitarfélagsins verði með svipuðu sniði og áður. Áætlunin gerir ekki ráð fyrir að um fjölgun stöðugilda verði að ræða. Lögð er á það áhersla að stofnunum er óheimt að auka við stöðugildi sín nema sækja sérstaklega um það.
Langstærsti útgjaldaliðurinn í rekstri eru fræðslumálin. Sá málaflokkur tekur nú orðið um 54 % af skatttekjum sveitarfélagsins.Gerðaskóli einn er með um 39 % af tekjunum.
Ekki er gert ráð fyrir því að mötuneyti taki til starfa við Gerðaskóla í ár. Það verður að fresta áformum um slíkt. Áætlaður stofnkostnaður er um 10 milljónir og er þá ekki gert ráð fyrir loftræstibúnaði né heldur rekstrarkostnaði.
Á fundi hreppsnefndar í janúar þarf að taka afstöðu til þess hvort bjóða á út að nýju rekstur leikskólans Gefnarborgar, semja áfram við núverandi rekstraraðila eða að sveitarfélagið sjái um reksturinn. Ákvörðun þarf að liggja fyrir um mánaðamótin jan/feb. en samningur er laus frá 1.ágúst n.k.
Leikskólagjöld voru hækkuð nokkuð nú um áramótin, þótt þau séu enn í lægri kanti meðal sveitarfélaga. Á árinu 2003 voru hlutföll orðin þannig að foreldrar borguðu rúm 24 % af rekstrarkostnaði og Gerðahreppur borgaði tæp 76%. Eftir hækkun koma foreldrar til með að borga tæp 30% af reksturskostnaði og Gerðahreppur rúm 70% af reksturskostnaði.
Gert er ráð fyrir því að leiga á leiguhúsnæði Gerðahrepps verði hækkað nú í byrjun árs og nú í fyrsta skipti verður reksturskostnaður umfram tekjur sýndur sem útgjöld hjá Félagsþjónustu. Þetta er í samræmi við tillögu sem samþykkt var í hreppsnefnd.
Afborganir lána með verðbótum og vöxtum eru áætlaðar rúmar 85 milljónir, en það er rúmum 25 milljónum lægra en árið 2003.

Framkvæmdir

Á árinu 2004 er gert ráð fyrir áframhaldandi átaki í lagningu gangstétta og malbikun gatna. Gert er ráð fyrir að til verkefnisins verði varið um 27 milljónum króna.
Áætlunin gerir ráð fyrir að hafist verði handa við stækkun Byggðasafnsins. Til verksins verði varið 16 milljónum, en þar af koma 6 milljónir frá Fjárlaganefnd Alþingis.
Fyrir liggur einnig að Fjármálaráðuneytið hefur samþykkt sölu á húseignum á Garðskaga fyrir kr. 1 milljón.
Hreppsnefnd þarf því að móta á næstu vikum hvernig best verður staðið að uppbyggingu safnamála á Garðskaga.
Þessi áætlun gerir ráð fyrir að byggður verði gervigrasvöllur á lóð Gerðaskóla.Áætlaður kostnaður er um 7 milljónum og gerir áætlunin ráð fyrir að 4 milljónir komi úr sveitarsjóði en 3 milljónir komi úr sjóðum KSÍ.
Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort haldið verður áfram með uppbyggingu öldrunarmála í nágrenni Garðvangs. Á árinu 2003 voru tilbúnar 10 íbúðir fyrir aldraðra og fyrir liggur ánsheimild fyrir 9 íbúðir til viðbótar.
Sumarvinna, viðhaldsframkvæmir  og umhverfisframkvæmdir eru áætlaðar með svipuðu sniði og áður.
Rétt er að minnast á að gert er ráð fyrir 1 milljón króna framlagi til upphafsframkvæmda á Skrúðgarði samkvæmt áður samþykktri verðlaunatillögu.
Einnig er gert ráð fyrir 2 milljón króna framlagi til viðhaldsframkvæmda á skrifstofuhúsnæði.

Lokaorð

Eins og sést á áætlun þeirri sem nú er lögð fram er reksturinn erfiður eins og hjá flestum sveitarfélögum landsins. Þrátt fyrir þá staðreynd hefur það ekki verið vilji hreppsnefndar að nota alla álagningastofn til fullnustu með þeim rökum sem að framan komu fram.
Það hefur einnig verið skoðun hreppsnefndar að nauðsynlegt væri að haga lántöku þannig að lánin væru greidd á löngum tíma því framkvæmdir s.s. skóli og gatnagerð o.fl. munu nýtast í tugi ára og því fullkomlega réttlætanlegt að hafa þau eins löng og hægt er og að skuldbreyta með vissu millibili.
Þessi stefna ásamt því að hafa nóg af byggingalóðum á góðum kjörum hefur orðið til þess að íbúum hefur fjölgað. Ég tel einnig að sú stefna að stuðla að því að fólk geti fengið viðbótarán hafi átt sinn þátt í fjölgun íbúa.
Átak Búmanna á einnig sinn þátt í þessari jákvæðu þróun.
Gjaldastefna Gerðahrepps gagnvart atvinnurekstrinum hlýtur einnig að stuðla að jákvæðu viðhorfi atvinnurekstursins gagnvart hreppsyfirvöldum.
Gerðahreppur hefur einnig á síðustu árum byggt upp mjög góða of’g fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa sína.
Eins og fram hefur komið fjölgar íbúum nú milli ára um 46 eða úr 1237 í 1283 eða um 3,72%.
Ef litið er á tímabilið frá 1990 hefur íbúum fjölgar úr 1074 í 1283 eða um 19,46%.
Aukning á íbúðarhúsnæði hefur að sjálfsögðu kallað á mikinn undirbúning, sem hefur kostað sitt. Þetta mun skila sér í náinni framtíð til sveitarsjóðs.
Ég vil að lokum þakka nefndum og starfsfólki fyrir góð störf við undirbúning að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004.

Garði 28.desember 2003.
Sigurður Jónsson, sveitarstjóri.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024