Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Garðmenn! Þitt atkvæði ræður úrslitum
Fimmtudagur 6. október 2005 kl. 17:24

Garðmenn! Þitt atkvæði ræður úrslitum

Úrslit kosninganna á laugardaginn, þegar kosið verður um hvort Garðurinn vilji sameinast Reykjanesbæ og Sandgerði skipta miklu um framtíð okkar sveitarfélags.
Verði sameining samþykkt verður Garðurinn ekki lengur til sem sjálfstætt sveitarfélag, heldur eitt af hverfunum í Reykjanesbæ. Kjósendur þurfa að hugsa sig vel um hvort þeir vilji að framtíð Garðsins verði þannig. Með því að setja x-ið við já á laugardaginn erum við að samþykkja þá tilhögun. Ef við setjum x-ið við nei viljum við að Garðurinn verði áfram sjálfstætt sveitarfélag.
Við viljum biðja þig að hugleiða nokkur atriði áður en þú tekur afstöðu til tillögunnar um að Garðurinn sameinist Reykjanesbæ og Sandgerði.
• Ef sameining verður samþykkt verður Garðurinn hverfi í Reykjanesbæ. Sameining er ákvörðun til framtíðar. Það er ekki hægt að snúa til baka, verði sameining samþykkt. Garðurinn verður aldrei aftur sjálfstætt sveitarfélag.
• Við minnum á og hvetjum þig til að hugleiða varnaðarorð Svarfdælinga og fleiri byggðakjarna sem hafa sameinast og benda á að ekki hafi verið staðið við fögur loforð.
• Sparnaður hefur ekki náðst í sveitarfélögum sem hafa sameinast.
• Ein meginforsenda mikillar fjölgunar á íbúðarhúsnæði hér í Garði eru lág byggingaleyfisgjöld. Verði sameining samþykkt munu þau gjöld hækka fjórfalt.
• Hefur þú trú á, að sama hraða uppbyggingin verði áfram í Garðinum miðað við þau byggingaleyfisgjöld sem gilda í Reykjanesbæ?
• Rekstur málaflokka í Garðinum er lægstur hjá sveitarfélögunum þremur.
• Verðmæti fasteigna í eigu bæjarins nema 950 milljónir. Garðurinn hefur ekki selt neinar fasteignir. Verðmæti fasteignanna myndi duga til að greiða allar skuldir bæjarins og í afgang ættum við 300 milljónir.
• Að auki eigum við hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja, sem eru að verðmæti a.m.k. 1 milljarður.
• Fjárhagsstaða okkar er góð.
• Við sameiningu munu fasteignaskattar á atvinnurekstur hækka um 37,5 %.
Ágætu Garðmenn. Við hvetjum ykkur til að velta þessum atriðum og fleirum fyrir ykkur áður en þið takið afstöðu á laugardaginn. Hver og einn kjósandi getur ráðið úrslitum um það hvernig framtíð Garðsins verður.
Ef þú telur framtíð Garðsins betur borgið sem hluta af Reykjanesbæ fer x-ið við já. Ef þú telur framtíð Garðsins betur borgið að vera áfram sjálfstætt sveitarfélag, þar sem við ráðum okkar málum sjálf setur þú x-ið við nei.
Ágætu Garðmenn. Við hvetjum þig til að nota þann dýrmæta rétt sem við höfum til að greiða aðkvæði á laugardaginn.

Ingimundur Þ.Guðnason,
forseti bæjarstjórnar Garðs.
Arnar Sigurjónsson,
bæjarfulltrúi Garði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024