Gangið hægt um netheimana dyr!
Að gefnu tilefni eru foreldrar minntir á að ekki er æskilegt að ung börn fái að ráfa um netheima eftirlitslaus. Margar eru hætturnar í netheimum líkt og dæmin sanna, ekki er langt síðan að skólastjóri Melaskóla tók þá ákvörðun að rýma sinn skóla sökum þess að Fésbókar notandi hafði hótað að sprengja skólann í loft upp ef hann fengi 1000 aðdáendur að þeirri síðu sem hann hafði sett upp. Sem betur fer reyndist síðan vera plat, en þegar upp komst um málið þá kárnaði gamanið hjá þeim sem átti í hlut.
Sumir skólastjórnendur á Íslandi sem og námsráðgjafar hafa haft á orði að mikið af agavandamálum megi rekja til þess að nemendur hafi setið of lengi við tölvuna áður en skólahald hefur hafist m.o.ö. hafa fengið að vera í tölvunni alla nóttina og hafa mætt örþreytt í skólann og engan veginn í stakk búin til að takast á við krefjandi nám sem fyrir þau hefur verið lagt.
Eyjólfur Jónsson sálfræðingur hefur m.a. sagt að tölvufíkn sé að verða eins stærsta orsök fyrir brottfalli í framhaldsskóla. Þá spyrja máski margir hvað er tölvufíkn? Við því er ekkert eitt svar, en líklegt má telja að rétta svarið sé a.m.k. að sá sem ekki getur hamið tölvunotkun sína sé haldin tölvufíkn.
Í æ ríkari mæli hafa foreldrar leyft börnum sínum að spila tölvuleiki á netleikjasíðum s.s. leikjanet.is og fleiri síðum. Það er mikilvægt að benda foreldrum ungra barna á að inn á slíkum síðum eru bannaðir ofbeldis leikir aðgengilegir fyrir alla. Fæstir myndu leyfa börnum sínum að horfa á bannaðar kvikmyndir og þ.a.l. er það ábyrgðarlaust að veita ekki eftirliti hvaða leiki barnið er að spila.
Á netinu eru síður eins og formspring, facebook, chatroulette. Sumar hafa nú þegar verið bannaðar í skólum á Íslandi. Einelti hefur því miður verið fylgifiskur slíkra síðna og því er afar mikilvægt að foreldrar minni börnin sín á að það gilda ekki aðrar reglur í netheimum en í hinu daglega lífi okkar. Þumalputtareglan er sú að setja ekki neitt á netið sem þú getur ekki staðið við, hvar og hvenær sem er.
Upplifum netnotkun með börnunum. Kennum þeim að spila uppbyggilega leiki, það er til fullt af þeim. Kennum þeim ábyrga netsiði og kennum börnunum okkar netboðorðin 10, en þau ásamt öðru góðu fræðsluefni má nálgast á saft.is – Munum að internetið er framtíðin – stöndum saman í því að búa til ábyrga netnotkun börnum okkar til heilla.
Undirritaður ásamt Kristjáni Frey Geirssyni varðstjóra forvarna hjá lögreglunni mun heimsækja grunnskólanna í Reykjanesbæ og ræða við nemendur og foreldra á næstu dögum um ógnanir og tækifæri internetsins.
Hafþór Birgisson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur