Gamli forsetinn minn
Nú er framboðsfrestur liðinn og styttist í forsetakosningar. Í mínum huga er ljóst að valið stendur milli tveggja til þriggja frambjóðenda. Einn þeirra er gamli forsetinn minn. Maður sem ég hef kosið í öllum kosningum síðan ég fékk kosningarétt. Fyrst sem þingmann Reykjaness og síðan forseta lýðveldisins. Ég mun hinsvegar ekki gera það nú og fyrir því liggja nokkrar ástæður.
Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að enginn eigi að sitja of lengi í sama embætti. Sagan hefur sýnt að það kann yfirleitt ekki góðri lukku að stýra, hvort sem það er á Íslandi eða annarsstaðar. Enda er það svo að í mörgum ríkjum er sett þak á hve lengi fólk getur setið í valdaembættum. Ekki óalgengt að það séu 2-3 kjörtímabil. Gamli forsetinn minn sækist nú eftir því að hefja sitt fimmta kjörtímabil. Hann er ekki viss um að ljúka því.
Hann er ekki viss um að ljúka kjörtímabilinu því þegar um hægist og óvissuástandi er aflýst gæti einhver annar tekið við og hann farið að sinna öðrum hugðarefnum sínum. Þetta er að mínu mati merki um að hann eigi erfitt með að skilja á milli sín og embættisins. Hann er farinn að telja sig ómissandi. Fólkið í landinu megi ekki við því að missa hann, því hann er sá eini sem getur og þorir. Embættið er kannski ómissandi, en Ólafur Ragnar er ekki ómissandi frekar en annað fólk.
Eitt helsta hlutverk forseta er að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Það er ekki auðvelt verkefni og krefst þess að forsetinn geti sýnt auðmýkt. Framan af forsetatíð sinni var gamli forsetinn minn sameiningartákn og auðmjúkur þjónn. Þó hann hafi verið umdeildur stjórnmálamaður náði hann listavel að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Undanfarin misseri hefur hann ekki sinnt því hlutverki heldur tekið upp hlutverk umdeilda stjórnmálamannsins. Því hlutverki fylgir hroki þess sem telur sig vita betur en aðrir. Honum virðist líka það hlutverk vel. Líklega færi betur á því að hann sinnti því á vettvangi þingsins en á forsetastóli.
Þjóðaratkvæðagreiðslur eru leið til að leiða mál til lykta. Niðurstaða þeirra er endanlegur dómur. Dómar skipa fólki oftast í andstæðar fylkingar. Dómar eiga að mínu mati ekki að falla fyrr en tilraunir til sátta hafa verið fullreyndar. Í þingræðisríkjum reyna menn að ná pólitískri sátt á þingi þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar sitja. Þá verður að sjálfsögðu að gera kröfu um að þingmenn reyni raunverulega að ná sátt, en ekki leika sér í sandkassanum eins og hefur tíðkast undanfarið. Forsetinn þarf því að velja mál sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu af kostgæfni.
Ég er einn þeirra sem telur að málskotsréttinum eigi að beita í algjörum neyðartilvikum þegar gjá er milli þings og þjóðar. Flestir eru sammála um að fyrri IceSave atkvæðagreiðslan hafi verið slíkt mál. Fjölmiðlalögin voru það hinsvegar ekki. Seinni IceSave atkvæðagreiðslan var rökstudd með vísan til þeirrar fyrri. Málið hafi verið komið í hendur þjóðarinnar og hennar að ljúka því. Með sömu rökum hefði átt að vísa seinni fjölmiðlalögum til þjóðarinnar, sem var ekki gert. Það er því óljóst hvernig gamli forsetinn vill beita málskotsréttinum. Fjöldi áskorana er einn mælikvarði, en þó ekki algildur því hann hefur lýst þeirri skoðun sinni að fiskveiðistjórnunarkerfið sé upplagt mál til að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að nokkur áskorun hafi borist.
Að lokum hef ég frekar íhaldssama sýn á embættið, sem helgast af því að ég tel að þingræði sé æskilegt stjórnarform í landinu. Ef þingið hefur markað stefnu sem þokkaleg sátt er um, þá á forsetinn ekki að fara gegn þeirri stefnu þó hann kunni að hafa aðrar persónulegar skoðanir. Ég mun því kjósa forseta sem deilir þeirri sýn minni.
Róbert Ragnarsson