Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Gaman saman – Búum til minningar!
Sunnudagur 12. júní 2011 kl. 19:23

Gaman saman – Búum til minningar!


Nú hafa grunnskólarnir í Reykjanesbæ útskrifað enn einn árganginn úr 10.bekk. Með heillaóskum frá starfsfólki skólanna um gott gengi í framtíðinni kvöddu þau og þökkuðu fyrir sig. Sumir nemendur fara með blendnar tilfinningar en aðrir eru spenntir og fullir tilhlökkunar að kynnast nýjum kennurum og starfsfólki annarra menntastofnana.

Sumarið framundan er ýmist baðað ævintýraljóma, hversdagsleika eða dapurleika. Það fer allt eftir því hvernig á málum er haldið. Þegar ég kvaddi mína umsjónarnemendur úr Akurskóla í vor bað ég þau að halda hópinn, vera áfram góðir vinir og hlúa að hvort öðru. Ég bað þau að upplifa ævintýri saman en jafnframt að verja tíma með  fjölskyldunni. Ég hvatti þau að búa til minningar.

Samvera í klukkutíma á dag
Ég horfi alltaf með eftirsjá eftir umsjónarnemendum mínum þegar þeir útskrifast úr grunnskóla. Það er einskonar móðurleg tilfinning, eins og að horfa á eftir barni sínu flytja að heiman. Verður allt í lagi og á það eftir að spjara sig úti í hinum stóra heimi? En sem betur fer er unglingurinn ekki einn, á bak við hann eru vinir og fjölskylda sem hefur staðið með honum í gegnum súrt og sætt og fylgir honum áfram á næsta þrep.

Fjölskyldan þarf að sýna í orði og verki; stuðning, aðhald og eftirlit.  Samkvæmt rannsókninni Ungt fólk 2010 - Framhaldsskólanemar http://www.rannsoknir.is/media/rg/skjol/Ungt-folk-2010-Vefutgafa-pdf.pdf kemur m.a. í ljós hvernig unglingar verja tíma með fjölskyldunni. Til að mynda horfa 32% framhaldsskólanema sjaldan eða aldrei á sjónvarp með fjölskyldu sinni, 79% fara sjaldan eða aldrei í bíó með fjölskyldu sinni og 85% fara sjaldan eða aldrei í leikhús með fjölskyldunni. 66%  stunda sjaldan eða aldrei íþróttir eða útivist með fjölskyldu sinni en 64% fara stundum eða oft í ferðalög með fjölskyldunni. 91% segjast oft eða stundum tala saman í fjölskyldunni. 88,4% segjast eiga oft eða stundum eiga auðvelt með samræður um persónuleg málefni við foreldra sína.

Ég ætla ekki að túlka niðurstöður þessarar rannsóknar en velti fyrir mér hvernig  fjölskyldur verja tíma sínum saman. Hvernig býr maður til góðar minningar? Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins. Hún heldur samfélaginu gangandi og án hennar myndi það hætta að vera til í þeirri mynd sem við þekkjum það.   Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegri til að hefja neyslu fíkniefna.  Unglingurinn vill verja tíma með fjölskyldunni en hann vill líka verja tíma með vinunum.

Fjölbreytt afþreying
Það er auðvelt að finna fjölbreytta afþreyingu í Reykjanesbæ. Af hverju ekki að mæla sér mót við vini og kunningja í Vatnaveröld og hanga í heitu pottunum eða skella sér í kvikmyndahús til að sjá góða bíómynd? Það er hægt að ganga eða hjóla meðfram strandlengjunni með nesti eða fara „hitaveituleiðina“ í Bláa lónið sem tekur rúmlega klukkutíma á reiðhjóli. Í Landnámsgarðinum við Víkingaheima eru landnámsdýrin og Víkingaheimar eru opnir alla daga. Fyrir boltafjölskyldur þá eru opnir körfu- og knattspyrnuvellir út um allan bæ. Knattspyrnuliðin eru þátttakendur í Íslandsmóti, bæði í Keflavík og Njarðvík í mörgum flokkum karla og kvenna og það er oft mikil stemmning á heimaleikjum. Vinsælar gönguferðir um Reykjanes eru undir stjórn Rannveigar L. Garðarsdóttir á hverjum einasta miðvikudegi í sumar.

Svona gæti ég haldið áfram og talið upp endalausa möguleika á afþreyingu fyrir fjölskyldur í okkar nánasta umhverfi. Það ættu allir að geta fundið sér eitthvað við hæfi. Ég vona að börn og unglingar í Reykjanesbæ komi í skólana að hausti með fallegar og góðar minningar frá sumrinu 2011. Kæru fjölskyldur hafið það sem allra best í sumar, njótið samverunnar og njótið þess að vera til.  Hafið gaman saman !


Ingigerður Sæmundsdóttir,

verkefnastjóri FFGÍR, grunnskólakennari í Akurskóla og formaður FFR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024