Gamaldags pólitík
Þegar flokkar bjóða sig fram í kosningum, þá er væntanlega gerðar stefnur og málefna skrár. Síðan eru þessi málefni lögð fram fyrir kjósendur og þeir vonandi kjósa eftir því hvar þeirra sannfæring liggur. En oft er það svo að þegar að kosningum lýkur þá er sóknin í völdin og stólana æðri málefnunum. Þetta erum við að sjá hér á íslandi trekk í trekk, bæði í landspólitíkinni sem og á sveitastjórnarstiginu. Þannig að kjósendur sitja eftir með vonbrigði og telja sig hafa verið svikin.
Nú fáum við þær fréttir að Frjálst afl sé jafnvel að sameinast Sjálfstæðisflokknum korter eftir kosningar. Hvar eru prinsippin, heiðarleikinn, áreiðanleikinn og traustið hjá Frjálsu afli gagnvart kjósendum sínum? Eykur það traust á stjórnmálin þegar stjórnmálaflokkar gera með sér samkomulag eins og Frjálst afl gerði við Miðflokkinn en hoppa svo yfir lækinn riftir því samkomulagi og semur við aðra? Það eru nákvæmlega svona vinnubrögð sem rýra traust almennings á stjórnmálin og stjórnmálamennina.
Ef kjörnir fulltrúar vilja láta taka sig alvarlega þá verða þeir að stunda heiðarlega pólitík þannig að kjósendur geti treysta því sem þeir segja og að þeir sýni traust sitt í verki en ekki bara í einhverju innihaldslausu froðusnakki.
Í framtíðinni vil ég sjá nýja kynslóð sem hefur kjark og getu til að breyta gamaldags vinnubrögðum þar sem kjörnir fulltrúar hætta að beygja reglurnar og taki upp nýja pólitíska nálgun í formi heiðarlegri vinnubragða.
Margrét S Þórólfsdóttir
Pírati.